Aðstoð við fátæka -- mál á dagskrá

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 11:18:48 (0)


139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að reyna að greiða fyrir þingstörfum eins og jafnan. (Gripið fram í.) Ég tel nefnilega að það sé sjálfsagt, þrátt fyrir að ýmislegt hafi auðvitað gengið á í aðdraganda þessa máls um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir flytur, að það mál verði tekið til umræðu og dagskrá fundarins breytt. Annað eins hefur gerst og ég tala nú ekki um vegna þess að hv. þingmaður hefur boðið að annað mál sem hún flytur verði tekið út af dagskránni í staðinn. Ég vil benda hæstv. forseta á að hæstv. utanríkisráðherra hefur þrátt fyrir þessi orðaskipti rétt út sáttarhönd og lýst því yfir að hann hafi ekkert á móti því að málið komi á dagskrá. Ég legg til að hæstv. forseti taki hæstv. utanríkisráðherra á orðinu og breyti dagskrá fundarins þannig að þessir tveir hv. þingmenn, hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir (Forseti hringir.) geti átt efnislega umræðu um það frumvarp sem óskað er eftir að verði tekið til umræðu.