Húsnæðismál

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 14:07:01 (0)


139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps sem kveður á um möguleika Íbúðalánasjóðs til að leigja með kauprétti það húsnæði sem hann hefur leyst til sín. Þetta er mikilvægur þáttur í því að fólk sem hefur misst húsnæði sitt geti búið áfram í því og átt von um að eignast það aftur. Þetta eykur húsnæðisöryggi þó að þessi lagabreyting ein og sér sé ekki með neinu móti fullnægjandi til að tryggja húsnæðisöryggi í landinu. Það mun verða verkefni næstu mánaða að fá aðra aðila sem leysa til sín íbúðarhúsnæði til að reyna að beita sömu aðferðafræði.

Það er ekki margt sem ég vil segja um þetta á þessari stundu. Félags- og tryggingamálanefnd mun reyna að vinna þetta mál með sæmilegum hraða og verður það sent út til umsagnar strax í dag. Þar eru ákvæði til bráðabirgða, sem eru nýmæli, um lán til framkvæmda til fyrirtækja og eins aukin lán til framkvæmda til fjölbýlishúsa til að greiða fyrir aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra að húsnæðinu. Þetta eru mjög jákvæðar tillögur því að þær ýta undir framkvæmdir sem ekki veitir af á þessum tímum atvinnuleysis og hafa jafnframt áhrif á aðgengismál fatlaðra sem er mjög mikilvægt að efla á Íslandi og þeim málaflokki hefur ekki verið veitt næg athygli. Það hefur ekki verið tekið af fullri alvöru á því að allir samfélagsþegnar þurfa að eiga óhindrað aðgengi að opinberum stofnunum sem og ýmissi annarri þjónustu rekinni af einkaaðilum.

Varðandi þennan þátt segir í umsögn fjármálaráðuneytisins að þetta séu lán sem geti numið allt að 100% af fasteignamati eignarinnar og geti því haft áhrif á áhættu sjóðsins en það hafi ekki farið fram greining á þeirri áhættu. Það er náttúrlega mikilvægt að nefndin leitist við að átta sig á hvað gert er ráð fyrir að þetta verði umfangsmikil útlán og hvort við metum það svo að þetta geti skapað þá hættu að við þurfum að gera breytingar á þessu bráðabirgðaákvæði. Nú vona ég að við getum gert ákvæðið eins og það er að lögum því að þetta er mjög jákvæð tímabundin aðgerð sem gagnast bæði atvinnustiginu sem og að sjálfsögðu mannréttindum í landinu. En ég vil samt hafa þann fyrirvara á að þetta vekur upp ákveðnar spurningar sem ég tel að nefndin þurfi að leitast við að fá svör við.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til félags- og tryggingamálaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og vona að við getum sem fyrst afgreitt það sem lög frá Alþingi.