Friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 14:38:11 (0)


139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010.

93. mál
[14:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og þakka hinni háu utanríkismálanefnd og formanni hennar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir snörp viðbrögð og vel unnið verk. Ég tel að það sé eðlilegt að Alþingi bregðist við þegar aðstæður eins og þessar koma upp og held að það hafi nú gerst með miklum sóma. Ég er ánægður með að hafa átt svolítinn hlut að því verki. Við verðum að muna, af því að okkur hættir til að stara upp á Arnarhólinn og aðra þá staði þar sem framkvæmdarvaldið hefur hreiðrað um sig, að þó að ríkisstjórnin kunni að sitja í heiðurssessi þá er Alþingi Íslendinga sá staður þar sem æðsta valdið kemur saman. Það getur jafnvel skipt meira máli fyrir þjóðina og orðstír hennar að Alþingi samþykki ályktun af þessu tagi frekar en að framkvæmdarvaldshafarnir geri það eða forsetinn beiti sér með einhverjum slíkum hætti fyrir utan að þeir eiga stundum ekki jafnhægt um vik og Alþingi alla jafna.

Ég verð að segja að mér finnst ekki viðkunnanlegt að einn hv. þingmaður komi inn í þetta mál með athugasemdir sem ekki eiga þar heima en það verður hver að fljúga sem hann er fiðraður eins og sagt var fyrr í dag. Það fyrnist yfir þann þátt málsins meðan hitt, held ég, stendur nokkra hríð að Alþingi hefur stutt nóbelsnefndina og hinn kínverska andófsmann og ljóðskáld, sem hann er, í sinni baráttu.