Gjaldþrotaskipti

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 15:10:22 (0)


139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að við þurfum að gera það sem við getum til að tryggja að fólk komist sem fyrst aftur á fæturna. Hins vegar er það svo að fyrningarreglurnar hvíla á ákveðinni hugsun um tiltekið jafnvægi á milli stöðu skuldara og kröfuhafa. Það sem við höfum í höndunum er frumvarp sem gerir mikla grundvallarbreytingu á þessari stöðu. Það sem ég er að gera athugasemdir við er að því skuli ekki vera fylgt eftir með nánari útlistun á t.d. stöðunni annars staðar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa okkur aðeins innsýn inn í það en ef við horfum t.d. til Bandaríkjanna þá er það mjög alvarlegur hlutur fyrir fólk að lenda þar í gjaldþroti vegna þess að það tapar stöðu sinni sem lántakendur. Þar eru menn með tiltekið kerfi og gefa mönnum einkunn eftir því hversu góðir skuldarar þeir eru. Ef þeir hafa lent í þroti þá tapa þeir stöðu sinni og þurfa að greiða mun hærri vexti í framtíðinni. Það er sem sagt kerfi, fyrirkomulag sem fælir fólk frá því að lenda í þroti.

Við þurfum að gæta okkar á því — og þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem uppi er í samfélaginu þá verðum við að geta tekið þá umræðu — að búa ekki til hvata fyrir fólk til að fara gjaldþrotaleiðina í stað þess að standa við skuldbindingar sínar. Það er þetta viðkvæma jafnvægi á milli þess að menn standi við skuldbindingar sínar en geti á sama tíma komist með fullri reisn í gegnum fjárhagslega erfiðleika og jafnvel gjaldþrot sem við þurfum að geta rætt hér. Ég vonast til þess að í þeirri umræðu sem mun eiga sér stað um frumvarpið fari menn ekki ofan í pólitískar skotgrafir og sjái sér einhver sóknarfæri vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu. Við erum sannarlega að fjalla um mál sem kemur við mjög marga og við verðum að gæta að grundvelli löggjafarinnar og fara ekki fram úr okkur.