Gjaldþrotaskipti

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 15:19:43 (0)


139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við 1. umr. þessa máls fyrst og fremst leggja áherslu á tvennt. Hið fyrra er að ég tel nauðsynlegt fyrir okkur á þinginu að ræða um fyrningu krafna við gjaldþrotaskipti og þess vegna ber að fagna því að málið sé komið fram og við höfum tækifæri til að fara yfir þessar reglur. Ég læt þess getið í því samhengi að ég tel reglurnar vera ósanngjarnar fyrir skuldara í dag og þá tillögu sem liggur fyrir um að styrkja stöðu skuldara gagnvart lánardrottnum tel ég vera skynsamlega. Síðara atriðið er að ég tel mjög nauðsynlegt að þessu máli verði gefinn tími í allsherjarnefnd og menn fari nákvæmlega yfir þær fyrningarreglur sem hafa gilt, grundvöll þeirra og forsendur fyrir því fyrirkomulagi sem við höfum fram til þessa byggt á, og gerður verði samanburður við nágrannalöndin og reynslu þeirra. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að verið er að leggja til afar róttæka breytingu á fyrningarreglum.

Það eru margar hliðar á þessum málum sem ástæða er til að gefa gaum. Í ræðu sinni kom hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir inn á að í frumvarpinu gæti falist hvati fyrir fjármálafyrirtæki til að ganga til samninga við viðskiptamenn sína sem væru komnir í vanskil. Það er auðvelt að sjá að slíkan hvata megi jafnvel lesa út úr þessu frumvarpi. Auðvitað höfum við almennt kallað eftir því í þinginu að fjármálafyrirtækin gerðu nú skurk en biðu ekki eftir því að einhver boð kæmu frá þinginu um að koma málum í lag.

Þá er það sú hlið á málinu sem þarf aðeins að ræða. Hún er að margir skuldarar eru tilbúnir að ganga til samninga við bankana, afhenda þeim allar eigur sínar en um leið óska eftir því að það sem út af standi verði fellt niður. Nú eru reglurnar þannig að sá hluti skuldarinnar sem nær upp fyrir tiltekin viðmið sem sett voru í fyrra verður skattlagður eins og tekjur þrátt fyrir að allar eigur hafi verið afhentar, ef skuldauppgjörið fer ekki fram innan nauðasamningafyrirkomulagsins. Þetta er nokkuð sem ég tel að gangi ekki upp. Ég tel að við þurfum að rýmka mjög regluna um hvenær fólk getur fengið skuldir sínar felldar niður án skattlagningar ef fyrir liggur að allar eigur hafi verið notaðar til að gera upp skuldir við viðkomandi kröfuhafa. Þetta er ein hlið á málinu. Af hverju erum við að ræða þessa hlið og af hverju er komið inn á hvatann sem fylgir þessu? Jú, er það ekki vegna þess að nú standa fjármálafyrirtækin og aðrir kröfuhafar frammi fyrir því að mögulega er komin útgönguleið fyrir skuldara sem þeir hafa ekki haft? Um leið og ég lýsi því yfir að stöðu skuldaranna þurfi að laga og hún hafi í raun verið afar ósanngjörn verðum við að gæta að því, þrátt fyrir þá erfiðu stöðu sem svo margir eru í í dag, að við setjum ekki beinlínis inn hvata til að fara þessa leið. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann segir að það leiki sér enginn að því að fara í gjaldþrot. Ég geri mér grein fyrir því. En það kann að vera langbesti kosturinn fyrir marga ef við búum til of ríkan hvata til þess.

Við getum t.d. velt því fyrir okkur hvers vegna fólk ætti að semja um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, gera samkomulag í gegnum greiðsluaðlögunarfyrirkomulagið hjá honum um að verja því sem næst öllum ráðstöfunartekjum sínum í þrjú eða fjögur ár fram í tímann í þeirri von að fá felldar niður skuldir eftir þann tíma. Hvaða hvati er að fara þá leið, semja um að verja svo stórum hluta ráðstöfunartekna sinna til að greiða niður skuldir í mörg ár ef til boða stendur önnur einfaldari og jafnvel sársaukaminni leið, nefnilega sú að sækjast eftir gjaldþrotaskiptum og vera innan tveggja ára laus undan öllum skuldum? Þetta er eitthvað sem við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur og ræða um leið og við förum yfir það af einhverri yfirvegun hvort ekki sé tilefni til að gera verulega réttarbót fyrir skuldara.

Í þessu frumvarpi er komið inn á að eins og lögunum er háttað í dag endurnýjast í raun og veru fyrningarfrestur krafna við gjaldþrotaskipti, þ.e. vegna þeirra krafna sem lýst er við gjaldþrotið og hann verður nýr, sá sami og hann hafði áður verið og fer eftir eðli kröfunnar. Við sjáum, eins og fram kemur í greinargerðinni, að kröfur sem áður höfðu fimm stærstu gjaldþrot af fjórum á 10 eða 20 árum munu nú fyrnast á tveimur árum og einungis í afar þröngum undantekningartilfellum er hægt að rjúfa þennan nýja tveggja ára fyrningarfrest. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að matið sem lagt er í hendur dómstóla, um að menn hafi hegðað sér með ámælisverðum hætti eða saknæmum, er býsna víðtækt. Hvenær hafa menn hegðað sér með ámælisverðum hætti í skilningi þessa frumvarps? Er það þegar menn tóku á sig skuldbindingu sem fyrirsjáanlegt var að þeir gætu ekki staðið undir? Er það það sem átt er við? Er það þegar menn tóku lán með lítilli greiðslubyrði sem fór síðar vaxandi í einhverju bjartsýniskasti um að ráðstöfunartekjur mundu vaxa en síðan brustu þær væntingar? Ég tel að það þurfi að fylgja miklu skýrari leiðbeining til dómstóla um það, ef við ætlum að afhenda þeim þetta mat, í hvaða tilviki við leggjum í hendur þeim.

Síðan þarf að ræða sérstaklega hvaða sanngirni sé í því að sá skuldari sem hefur gert lánasamning við annan mann og er í góðri stöðu til að efna þann lánasamning sé í miklu betri stöðu við gjaldþrot en sá sem með ámælisverðum hætti tók að sér skuldbindingu við þann sama kröfuhafa. Hvers vegna ættum við hafa slíkan mun? Hvers vegna ættum við að segja ómögulegt að koma við rofi á fyrningarreglunni gagnvart þeim sem augljóslega hefði átt að geta staðið í skilum en greip síðar til einhverra ráðstafana sem komu í veg fyrir að hann gæti það, hvers vegna ætti ekki að vera hægt að rjúfa fyrningu gagnvart honum þegar aðrir sem tóku kannski fáránlega áhættu falla undir þessa undantekningarreglu lenda í því að hægt væri að viðhalda kröfunni? Það geta nefnilega komið upp síðari atvik, eftir að til skuldbindingarinnar er stofnað, sem mögulega verða talin ámælisverð. Við þurfum að svara því hvort hin ámælisverða hegðun sem vísað er til í frumvarpinu eigi einungis við um það þegar til lánagerningsins var stofnað eða hvort líka geti komið til skoðunar einhver síðari atvik, t.d. eitthvert annað lán sem kom viðkomandi í tóm vandræði. Það eru endalaus svona matskennd atriði sem við þurfum að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt mikið lengra við 1. umr. þessa máls. Ég kalla eftir því að farið verði mjög nákvæmlega yfir þetta. Ég vil undirstrika að ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég tel nauðsynlegt að bæta réttarstöðu skuldara við gjaldþrot. Ég tel líka að sérstök ástæða sé til að fara í það núna vegna þess að við vitum að margir munu lenda í það miklum greiðsluerfiðleikum að gjaldþrot verður óumflýjanlegt. En það eru þessir fletir sem við þurfum að velta fyrir okkur: Það eru skattaleg áhrif þegar menn gera samninga um að fá skuldir sínar felldar niður, það er hvatinn til að nota einhver af þeim greiðsluúrræðum sem við höfum lögfest — við þurfum að spyrja okkur að því hvort við drögum úr hvata með því að fara þá leið. Við þurfum líka að spyrja okkur: Er almennt séð verið að draga úr hvata til að standa við skuldbindingar? Hingað til hefur það verið ákveðið grunnstef í löggjöfinni að henni sé hagað þannig að fólk sé hvatt til að standa við skuldbindingar sem það hefur tekið á sig. Við megum ekki ganga svo langt í hina áttina að við sköpum hvata til að losna undan þeim skuldbindingum sem menn höfðu ákveðið að gangast undir. Það hlýtur að þurfa að vera meginreglan áfram að menn standi við þær skuldbindingar sem þeir hafa skrifað upp á og gengist við.

Að þessu sögðu lýk ég máli mínu og óska eftir því að við tökum þann tíma sem nauðsynlegur er til að reifa þetta mál frá öllum sjónarhornum.