139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

81. mál
[17:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur staðfest þann grun minn að Íslendingar missi hluta af fullveldi sínu við að ganga í Evrópusambandið þar sem það hefur ekki lengur vald til að gera samninga við erlend ríki. Ísland missir þar af leiðandi þennan spón úr aski.

Nú kynni einhver að halda að ég sé hlynntur því að ganga í Evrópusambandið. Til að hafa það alveg á tæru þá er ég á móti því að ganga í Evrópusambandið og því aðlögunarferli sem er í gangi núna í aðildarviðræðunum svokölluðu sem náttúrlega eru ekki aðildarviðræður heldur er verið að aðlaga Ísland að reglum Evrópusambandsins, þetta er aðlögunarferli. Aðildin verður ekki ákveðin lýðræðislega á Íslandi, ekki nema þá hér á Alþingi, vegna þess að þingmenn hafa svarið eið að stjórnarskránni og samkvæmt henni ber þingmönnum að fara að sannfæringu sinni. Það er eiginlega nokkuð sama hvað þjóðin segir í atkvæðagreiðslu sem fyrirhugað er að halda, það eru þingmenn á hinu háa Alþingi sem munu á endanum taka afstöðu til þess hvort Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, ef svo illa vill til að menn gangi svo langt. Þá getur gerst það sama og gerðist þegar samþykkt var þingsályktun um að ganga til viðræðna; hér verði beitt kattasmölun. Það getur leitt til þess að hið háa Alþingi fari að flokksræði, þvert á vilja þjóðarinnar.