Samvinnuráð um þjóðarsátt

Fimmtudaginn 04. nóvember 2010, kl. 15:33:35 (0)


139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þessu er einfalt. Það er nei. Ég tel ekki að það sé neinn slíkur vandi. Við upplifum ekki samstarf okkar við stjórnarandstöðuna með þeim hætti að af hálfu ríkisstjórnarinnar sé um eilífan spuna að ræða. Ég held einfaldlega að við verðum að reyna að komast út úr þessari umræðu. Annaðhvort meina menn eitthvað með því að ræða saman eða ekki. Það hlýtur að vera þannig.

Hér er til umræðu tillaga framsóknarmanna um samráðsvettvang. Þá verða menn að vera tilbúnir að ræða málið með ólík sjónarmið að leiðarljósi. Það er ekki hægt að ætlast til þess, eins og mér sýnist sjálfstæðismenn ætlast til, að annaðhvort setjist menn niður á forsendu Sjálfstæðisflokksins eða að yfir höfuð sé ekki hægt að setjast niður. Það er heldur ekki þannig að það sé eitthvað óeðlilegt við þá verkstjórn forsætisráðherra að kalla til samstarfs með opnum huga og að hún þurfi að sæta ámæli frá Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa ekki komið fyrir fram með innkaupalista og ætlað að troða fyrir fram mótuðum tillögum ofan í kokið á sjálfstæðismönnum. (Gripið fram í.) Þvert á móti bauð hún upp á eðlilegan farveg sem er opið samráð sem allir koma að.

Forseti Alþýðusambandsins kallar eftir því. Þjóðin kallar eftir því að menn setjist niður og ræði saman, ekki með slagorðagjálfri, heldur af ákveðinni virðingu fyrir viðhorfum hvers og eins. Það er tilboðið sem ríkisstjórnin hefur sett fram og það er á borðinu. Við viljum helst að sjálfstæðismenn endurskoði afstöðu sína alveg eins og þeir gerðu í tilviki skuldamálanna. Þá endurskoðuðu þeir þá afstöðu sína að vera ekki með í byrjun og komu síðan að borði. Ég vonast til þess að sjálfstæðismenn endurskoði afstöðu sína núna. Það er ekki þannig að menn fái allt eða ekkert í stjórnmálum, ekki heldur við í Samfylkingunni. Við erum líka að semja um framgang okkar mála við samstarfsflokk, bæði í fyrri ríkisstjórnum og þessari.

Stjórnarandstöðu er boðið til samstarfs á eðlilegum forsendum, á forsendum sem tíðkast í nágrannalöndum. Það er óskiljanlegt ef menn reyna að gera ríkisstjórn upp annarlegar hvatir þegar slíkt tilboð er sett fram.