Samvinnuráð um þjóðarsátt

Fimmtudaginn 04. nóvember 2010, kl. 15:40:52 (0)


139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þessi grunnhugsun sem liggur að baki hugmyndum okkar um samráð um efnahags- og atvinnumál. Það eru ólíkar hugsjónir, ólík viðhorf og ólíkar ástæður fyrir því að kjósendur kusu okkur til setu á Alþingi. Við verðum öll að gæta heiðarleika gagnvart kjósendum okkar og umboðinu sem við fengum. En það er ekki útilokað að við getum náð saman um einhverja hluti. Ég vil nefna eitt atriði.

Eftir greiningar í sumar og haust liggur fyrir að mikilvægasti þátturinn til að flýta fyrir hagvexti í landinu er að finna fleira starfsfólk hér innan lands fyrir ört vaxandi hugverkaiðnað á sama tíma og við erum með fullt af fólki sem hefur ekki menntun eða þjálfun til þess að sinna verkefnum fyrirtækjanna. Það er hlutverk ríkisvaldsins að byggja þarna brú. Það er hlutverk ríkisvaldsins í efnahags- og atvinnustefnu að auðvelda atvinnulausu fólki að fá vel launuð störf í ört vaxandi greinum. Þetta er verkefni sem við erum að fara af stað með núna, sjá hvað kostar að leysa þennan vanda og hvernig við getum mögulega fjármagnað hann. Þetta er atriði sem á hvergi annars staðar heima en í góðu samstarfi. Ég get ekki ímyndað mér að menn hafi hvata til að vera á móti stefnumörkun af þessum toga. Það eru fjöldamargir svona hlutir sem við getum rætt og sameinast um, þó við séum ekki sammála um alla þætti allra mála.

Hvað varðar skuldaleiðréttinguna þá er ég ekki þeirrar skoðunar að við eigum að róta í vísitölu til að breyta einhverju fram á veginn. Ef við höfum á annað borð vísitölu eigum við að hafa hana eins góða og mögulegt er. Það er staðreynd að aðferðirnar sem við notum við verðmælingar til grundvallar vísitölu eru með því besta sem þekkist. Það er staðreynd að grunnurinn sem við byggjum á um hvað er reiknað inn í vísitöluna er í samræmi við alþjóðleg viðmið og jafnvel betri en þau. Ég held að þetta sé spurningin hvort við ætlum að leggja verðtrygginguna af eða ekki. Ef við ætlum að leggja hana af þá er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að fá aðra stoð. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa betri gjaldmiðil ef við ætlum að leggja verðtryggða krónu af.