Samvinnuráð um þjóðarsátt

Fimmtudaginn 04. nóvember 2010, kl. 16:20:35 (0)


139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram undir forustu formanns flokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um samvinnuráð um þjóðarsátt. Það mál snýr að því sem við höfum talað fyrir á vettvangi þingsins í á annað ár, að auka samstarf og samvinnu þingmanna í þessum sal um aðgerðir til þess að koma okkur út úr þeirri kreppu sem við okkur blasir. Reyndar virðast menn skynja raunveruleikann á Íslandi í dag á mismunandi hátt því að þegar við ræddum um árangur ríkisstjórnarinnar fyrr í dag í efnahagsmálum, í aðgerðum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki, notaði hæstv. forsætisráðherra þau orð að ríkisstjórnin hefði gert kraftaverk þegar kæmi að stefnunni í efnahagsmálum og málefnum skuldugra heimila og fyrirtækja. Ég veit ekki í hvaða heimi hæstv. ríkisstjórn er, en það er alveg ljóst að hún er í litlum tengslum við þær raddir sem heyrast og fara hækkandi þar sem kallað er eftir því að ráðist verði í raunverulegar aðgerðir. Þegar hæstv. forsætisráðherra breytir hugtakinu kraftaverk svona skelfilega held ég að réttara sé að kalla hlutina sínu rétta nafni.

Hver er staðreynd málsins? Hagstofan gaf nú nýlega út tölur fyrir annan ársfjórðung ársins 2010 og verri tölur hagstjórnarlega séð hafa varla sést í marga áratugi. Þar kom í ljós að það er gríðarlegur samdráttur í einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingu. Það eina sem Hagstofan fékk eftir að hafa birt þessar ljótu tölur var heilmikil gagnrýni á aðferðafræði stofnunarinnar. Þegar stofnanir koma fram með óþægilegar tölur fá þær það bara óþvegið og menn vega að trúverðugleika þeirra.

Nei, við erum á rangri leið. Það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera í framhaldi þessa er að hækka enn frekar álögur á heimili, á atvinnulífið og fara í blóðugan niðurskurð þegar kemur að velferðarmálum í landinu.

Á hátíðisdögum segja ráðherrar að ríkisstjórnin kenni sig við norræna velferð. Ég veit ekki á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn er en að mínu viti er hún ekki á réttri leið. Hún er á kolrangri leið og það er þess vegna sem við leggjum þetta mál fram, til að auka arðsemi íslensku samfélaginu, fjölga störfum, auka tekjur ríkissjóðs og minnka þannig þann blóðuga niðurskurð sem norræna velferðarstjórnin beitir sér fyrir. Við viljum minnka skattahækkanir og koma í veg fyrir skattahækkanir sem eiga að hellast að nýju yfir heimilin og fyrirtækin.

Hvað á að gera nú? Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2011 á að hækka gjöld og álögur á áfengi og á tóbak. Hvað þýðir það? Það þýðir að kostnaður heimilanna vegna þessara útgjaldaliða mun aukast. Vítt og breitt um landið eru bílar fætur fólksins. Menn þurfa að ferðast. Ef ríkisstjórnin ætlar enn og aftur að hækka bensínverðið og þar með talið flutningskostnaðinn, segi ég: Nú er nóg komið. Við þurfum að breyta þessari stefnu.

Við framsóknarmenn lögðum fram þetta mál á síðasta þingi. Það fékk ágæta umræðu í þingsal. Þingmenn flestra flokka tóku undir þau markmið sem sett eru í þingsályktunartillögunni. Þó dagaði málið uppi. Það dagaði uppi í efnahags- og skattanefnd og þegar það var sent út til umsagnar til lykilstofnana eins og Alþýðusambands Íslands, sambands íslensks launafólks, og til Samtaka atvinnulífsins, þetta merkilega mál sem fengið hafði mjög góða þverpólitíska umræðu á þingi, sáu aðilar launafólks og atvinnulífs ekki ástæðu til að senda inn skriflega umsögn um það. Ég spurði í nefndinni hverju það sætti. Ég fékk engin svör við því, það væri bara takmarkaður tími sem þessir aðilar hefðu til þess að fara yfir mál. Það vill svo einkennilega til að alltaf eru veittar umsagnir um frumvörp sem koma frá stjórnarliðinu en ekki ef þau koma frá stjórnarandstöðunni. Við þurfum ekki aðeins að breyta andrýminu og vinnubrögðunum í þingsal, við þurfum líka að breyta viðhorfi þessara stofnana gagnvart Alþingi Íslendinga og hlutverki stjórnarandstöðunnar.

Hér ræðum við ályktun sem kveður á um að þessir aðilar, samtök launafólks og Samtök atvinnulífsins, fari með okkur í hið stóra verk sem fram undan er. Engin umsögn er um málið. Ég trúi því ekki að þegar málið fer aftur í efnahags- og skattanefnd, og veit ég að hæstv. utanríkisráðherra veður mér dyggur stuðningsmaður í þeim efnum enda þekkir hann vel til innan Alþýðusambands Íslands, fái þessi þingsályktun fái svo mikið sem nokkur orð í umsögn frá samtökum launafólks á Íslandi. (Utanrrh.: Ég hef engin ítök.) Hæstv. ráðherra segist ekki hafa nein ítök í þessum samtökum og er það þá ákveðin vísbending um að mjög djúpstæður klofningur sé innan Samfylkingarinnar því að oftar en ekki hafa ráðherrar Samfylkingarinnar og Alþýðusambandsins gengið mjög í takt í mörgum stórum málum. Oft hefur ríkisstjórnin átt dygga stuðningsmenn í röðum Alþýðusambands Íslands en það virðist eitthvað vera að breytast.

Ég sé að hæstv. ráðherra hlustar af mikilli athygli á ræðu mína. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að einu: Í ljósi þess að við erum með höft, að við erum með lokað hagkerfi, að menn geta ekki farið með neina fjármuni úr landi, hvernig stendur á því að við Íslendingar borgum hæstu stýrivexti í Evrópu eftir þessi tvö ár? Hæstv. ráðherra talar á tyllidögum um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs en svo bjóðum við íslenskum heimilum, skuldugustu heimilum í heimi, og íslensku atvinnulífi upp á það að búa við himinháa stýrivexti, að við tölum nú ekki um skuldugan ríkissjóð. Eins og hæstv. ráðherra veit borgum við hátt í eina krónu af hverjum fimm í vaxtagjöld. Háir stýrivextir hafa veruleg áhrif á hvað við greiðum í vexti, eins og hæstv. ráðherra veit.

Í 2. lið tölum við um lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Ég held að hæstv. ráðherra hafi hingað til tekið vel í þá hugmynd okkar framsóknarmanna. Þá spyr maður sig aftur og aftur í ljósi þess að hæstv. ráðherra heldur margar fallegar ræður um tillögur okkar, og vil ég þakka fyrir það: Hvers vegna gerist ekki neitt? Hvers vegna breytast þessi mál ekki neitt? Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra svari því.

Mig langar líka að nefna að það er grátlegt að sjá þegar verktakar hringinn í kringum landið, á höfuðborgarsvæðinu, fyrir austan, norðan og vestan, kvarta yfir því hve fá verk eru fram undan. Menn eru jafnvel farnir að selja gröfurnar sínar, bílana sína, úr landi vegna verkefnaskorts. Hvernig stendur á því að menn hafa ekki hafið stórátak í verklegum framkvæmdum? Menn tala og tala en efndirnar eru litlar sem engar.

Það var stórmerkilegt að fara í Neskaupstað og á Siglufjörð og heyra um að þar eru fyrir höndum framkvæmdir sem snerta öryggismál íbúa á þessum stöðum. Framkvæmdir í ofanflóðavörnum — það þurfti að rýma hús á Siglufirði í fyrra — sem mundu skapa hundruð starfa á næstu þremur, fjórum árum. Ég hringdi vestur á firði. Þar eru tvö verk sem eru nærri því tilbúin til útboðs. Og menn tala um dapra stöðu ríkissjóðs. Svo vill til að ofanflóðasjóður á á 8. milljarð kr. inni á bankareikningum, fær um 500–600 milljónir á ári í iðgjöld og annað eins í vaxtagreiðslur. Menn ætla ekki að fara í neinar framkvæmdir og nota þessa peninga. Menn ætla ekki að blása lífi í atvinnulífið á þessum stöðum. Það hefur verið kyrrstaða í á annað ár. Það er grátlegt að verða vitni að öðru eins aðgerðaleysi, algjöru aðgerðaleysi, þegar við horfum upp á að á annan tug þúsunda Íslendinga gengur um án atvinnu. Mörg fyrirtæki eru að keyra í þrot, það gengur einfaldlega ekki. Nú er komið að því og ég segi við hæstv. utanríkisráðherra: Það er nóg komið af fallegu ræðunum, af flottu blaðamannafundunum. Við verðum að fara að framkvæma.

Ég tek undir með formanni Framsóknarflokksins í þeim efnum, við gerum það ekki nema með víðtækri samvinnu á þinginu með einhvers konar þjóðstjórn sem kemur sér saman um ákveðin afmörkuð verkefni. Við skulum haldast í hendur í þeim erfiðu málum sem fram undan eru því að eins og fram kom í dag er ríkisstjórnin því miður rúin trausti. Hún er máttlaus. Hún framkvæmir ekki það sem þarf að gera. Það þurfa fleiri að koma að málum. Þess vegna er þetta mál sett fram af góðum hug og í (Forseti hringir.) góðum tilgangi.