Samvinnuráð um þjóðarsátt

Fimmtudaginn 04. nóvember 2010, kl. 17:00:26 (0)


139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þessari þingsályktunartillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins leggur fram, þ.e. tillögu um samvinnuráð um þjóðarsátt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og tek undir með mörgum sem hafa talað í dag, að það þurfi í raun og veru að mynda þjóðstjórn. Ástæðan er að mínu mati — sérstaklega eftir að hæstv. utanríkisráðherra sem er búinn að vera í galsakasti í dag og áður en ég ræði efnislega um tillögurnar ætla ég aðeins að koma inn á það.

Staðreyndin er sú og það er alveg sama hvort talað er við ASÍ eða Samtök atvinnulífsins eða Félag framhaldsskólakennara sem var á fundi fjárlaganefndar í morgun. Nánast allt sem var í stöðugleikasáttmálanum var nefnilega svikið. Það skiptir engu máli fyrir hæstv. ríkisstjórn þótt hún setji eitthvað á blað og skrifi undir við þessa hagsmunaaðila sem stöðugleikasáttmálinn var sem var eins konar þjóðarsátt. Menn hefðu átt að byggja upp fyrir framtíðina. Því miður er það þannig að ríkisstjórnin er búin að svíkja þetta nánast allt. Hún bar enga virðingu fyrir stöðugleikasáttmálanum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að mynda þjóðstjórn. Það er nefnilega ekki hægt að treysta á samráð við ríkisstjórnina því að þegar henni hentar virðist hún svíkja það. Þegar hún er komin í ógöngur kallar hún eftir einhverju og síðan gerist það að lítið verður úr því. Mér finnst þetta vera fullreynt og núna þarf að mynda þjóðstjórn.

Það er hægt að benda á margt í því samhengi en ég tek bara eitt dæmi. Það var mynduð svokölluð sáttanefnd í sjávarútvegsmálum af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í henni sátu 20 aðilar og 18 þeirra komust að sameiginlegri niðurstöðu. Um leið og nefndin var búin að skila af sér sameiginlegu sáttatillögunni, þ.e. fara svokallaða samningaleið, sem er mjög mikil breyting, þá komu einstaka þingmenn og ráðherrar og vildu ekkert með það að gera vegna þess að það hentaði ekki þeim pólitísku keilum sem þessir einstaklingar höfðu slegið. Það er mjög dapurt. Til hvers var þá farið af stað með þessa sáttanefnd sem skilaði af sér? Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi, fyrir utan fulltrúa Hreyfingarinnar, stóðu að þessari sátt, öll þessi hagsmunasamtök. Það var ekkert gert með það. Það var aldrei látið reyna á það. Þá er farið að slá pólitískar keilur og við vitum að líf einstakra hv. þingmanna snýst um það að agnúast og hrakast út í sjávarútveginn. Ég hef verið hugsi yfir því og ég ætla að segja það í fullri alvöru, hvað þarf í raun og veru að gerast á þinginu til að við getum farið að vinna í anda þessara tillagna hér? Hvað þyrfti að gerast? Þyrfti að fá 10 þingmenn svo ég nefni einhverja tölu og setja þá í hliðarsal og leyfa þeim að rífast þar? Og láta þá hina í friði sem vilja ná sáttum og vinna að einhverjum framförum fyrir þjóðfélagið. Það er algerlega kristaltært í mínum huga að ef við ætlum að komast út úr þessum erfiðleikum sem við erum í dag, því erfiðleikunum fjölgar, þá verðum við að gera akkúrat það sem hér er lagt til og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælti fyrir áðan, við þurfum að ná samstöðu um þjóðarsátt og það þarf að mynda þjóðstjórn þegar ríkisstjórnin svíkur allt sem hún gerir. (Gripið fram í: Það náðist allt.) Náðist allt, auðvitað er þetta öfgar ég skal viðurkenna það. Ég dreg þetta til baka en hún ber alla vega enga virðingu fyrir því sem hún skrifar undir.

Ég vil nefna eitt til viðbótar. Hvað gerist hérna? Hvað þarf að gera? Ég ætla að rifja upp þegar hæstv. forsætisráðherra hélt stefnuræðuna. Hvað boðaði hæstv. forsætisráðherra þá? (Gripið fram í.) Já, fyrir utan það sem hún var búin að boða í eitt og hálft ár. Hún boðaði að ríkisstjórnin mundi leggja fram 216 lagafrumvörp ef ég man rétt, 216. Er það það sem er að leysa vandann í dag? Við þyrftum að taka svona 10 mál — og ég tek undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem sagði áðan: Við skulum þá byrja á því að koma okkur saman um eitt, bara eitt. Það skulum við gera. Það sem við þurfum að gera, virðulegi forseti, er að við þurfum fyrst og fremst að læra að bera virðingu fyrir skoðunum hver annars. Ég tek alveg undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan. Það er ofboðslega dapurlegt að upplifa það í þinginu að ef tillögur koma frá einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokkum eða hreyfingum eða jafnvel einstökum þingmönnum stjórnarliða þá er ekki hægt að ræða þær efnislega. Þetta er ekki boðlegt.

Síðan ætla ég aðeins að koma inn á það sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan þegar við vorum í óundirbúnum fyrirspurnum. Þegar við sjálfstæðismenn lögðum fram okkar efnahagstillögur tók hún þær algerlega út af borðinu, nánast hverja einustu, sagði að þetta væri bara ónýtt plagg. Síðan kemur hún áðan og segir: Lagt er til að bæta 35 þúsund tonnum við þorskkvótann. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er búinn að benda á að þetta er akkúrat það sem stjórnarliðar hafa verið að tala um að gera til að fara í innspýtingu inn í efnahagslífið og skapa störf. Þá segir hæstv. forsætisráðherra: Hvað skyldi Hafró segja? Ég segi, virðulegi forseti, að forsætisráðherra sem talar með þessum hætti er ekki hæf til að stýra landinu. Það er bara ekki flóknara en það. Hún gerir sér ekki grein fyrir því að það er hún sem stjórnar landinu. Það er eins og skipstjórinn færi alltaf niður til hásetanna og spyrði: Hvað á ég nú að gera og hvert á ég að róa? Þetta er ekki svona. Sá sem stýrir landinu spyr ekki svona vitlausra spurninga. Auðvitað tekur hún þessar ákvarðanir. Hefði hæstv. forsætisráðherra hlustað á allar ræðurnar sem margir fluttu í fyrra, meðal annars ég. Við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson vorum sammála um, og ég er alveg viss um að það var meiri hluti fyrir því á Alþingi, að bæta við aflaheimildir í fyrra. Þá voru færð rök fyrir því á grunni og forsendum Hafrannsóknastofnunar að óhætt væri að bæta 40 þúsund tonnum við þorskkvóta. Þá hefði þorskstofninn verið byggður úr því sem var 702 þúsund tonn upp í 718 þúsund tonn. Við hefðum byggt hann upp en áætlunin var að byggja hann upp í 762 þúsund tonn. Ef við viljum ekki skapa störf núna og skapa atvinnu, hvenær þá? Skapa störf og skapa þjóðartekjur núna í þessum aðstæðum.

Fólk skilur ekkert í því, og það er rétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á áðan, að það blasir við bæði í gegnum fjáraukalögin og annað að ráðstöfunartekjur heimilanna eru það litlar að það er allt stopp í hagkerfinu. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, algerlega. Það er akkúrat það sem kemur fram í okkar tillögum.

Síðan ætla ég að taka eitt dæmi til viðbótar. Hvers vegna er þessi ríkisstjórn svona algerlega handónýt eins og hún er? Það er t.d. ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tekur ákvörðun þegar hann fer fram úr rúminu einn daginn um það að gefa rækjuveiðar frjálsar. Það kostar ríkissjóð og skattgreiðendur landsins 1 milljarð. Hann kynnir ekki tillöguna í ríkisstjórn, honum dettur þetta í hug þegar hann fer fram úr. Ég er alveg sammála því, auðvitað eigum við að hjálpa fólki sem á ekki fyrir mat. Við þurfum að skaffa fólki umgjörð svo að það þurfi ekki að standa í biðröðum og betla. En þegar misvitrir stjórnmálamenn taka ákvarðanir um að eyða 1 milljarði af fé skattgreiðenda til þess að slá pólitískar persónulegar keilur þá verður að losna við þetta lið. Það segir allt sem segja þarf. Svona fólk getur ekki stjórnað landinu.

Til viðbótar. Þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram, hvað gerist þá? Stjórnarliðarnir koma af fjöllum ofan, þeir vita hvorki í þennan heim né annan. Þeir eru á harðaflótta frá frumvarpinu, sama hvort það er tekjuhliðin sem er algerlega röng eða gjaldahliðin. Ég segi bara: Þeir sem leggja fram þetta fjárlagafrumvarp með öllum þessum niðurskurði eins og áætlað er fyrir margar heilbrigðisstofnanir úti á landi — ég get talið þær margar upp, þær eru t.d. á Ísafirði, Sauðárkróki, Húsavík, fyrir austan, sunnan og um allt — þeir senda skilaboð inn í samfélögin sem setja þau á annan endann og þeir gera ekkert nema setja óöryggi og óvissu inn í samfélögin. Þeir leggja þetta fram og segja svo: Við skiljum bara ekkert í því hvaðan þetta kom þrátt fyrir allar þessar afleiðingar, enda eru stjórnarþingmennirnir á harðahlaupum frá þessu. Ætlar einhver að halda því fram svo mikið sem í eina sekúndu að fólk sem vinnur svona eins og ég er búinn að rekja hér á undan sé til þess fallið að stjórna landinu? Mín skoðun er alveg klár. Nei. (Gripið fram í.)