Aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin

Föstudaginn 05. nóvember 2010, kl. 12:02:19 (0)


139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki skrýtið að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra segja að hann mundi styðja margar af þessum góðu tillögum sem koma fram hjá Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mótaði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá efnahagsáætlun sem núverandi ríkisstjórn hefur meira og minna starfað eftir. Þar má telja endurreisn á allt of stóru og veiku bankakerfi, tryggingu allra innstæðna, jafnvægi í ríkisjöfnuði á mjög skömmum tíma 2013 sem hv. þm. Bjarni Benediktsson var að staðfesta að hann vill enn þá halda sig við og að það mætti helst ekki koma nálægt því að leiðrétta skuldir heimilanna.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort þessi þingsályktunartillaga þýði að Sjálfstæðisflokkurinn telji þá áætlun sem þau stóðu að hafa mistekist. Eða er þetta bara frekari útfærsla á stefnu Þingvallastjórnarinnar?