Bankasýslan og Vestia-málið

Mánudaginn 08. nóvember 2010, kl. 15:53:50 (0)


139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[15:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að fara yfir þetta mál. Það var þannig að 20. ágúst sl. tilkynntu Landsbankinn og Framtakssjóður Íslands að þeir hygðust taka upp samstarf um viðskipti sem fólu í sér sölu Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðsins samhliða fjárfestingu Landsbankans í Framtakssjóðnum. Þarna áttu í hlut sjö félög sem fylgdu Vestia inn í Framtakssjóðinn en hjá þeim vinna samtals um 6 þús. manns. Félögin eru Icelandic sem áður hét SH og er alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með samtals um 30 dótturfélög og starfsemi í 14 löndum, Teymi sem er eignarhaldsfélag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni og á eftirfarandi félög: Vodafone, Skýrr, EJS og HugAx, þriðja er Húsasmiðjan sem er blóma- og byggingarvöruverslun með 16 verslanir um allt land og það fjórða er Plastprent sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu plastumbúða og plastfilma.

Þetta gerist þannig að endurgjaldið fyrir eignarhald Framtakssjóðsins fyrir Vestia er 19,5 milljarðar kr., eins og málshefjandi benti réttilega á, en um leið skuldbatt Landsbankinn sig til að eignast 30% hlut í sjóðnum. Kostgæfnisathugun vegna þessara kaupa fer nú fram og það er ástæða þess að þau eru ekki endanlega um garð gengin.

Þegar rætt er um eigendastefnu ríkisins í sambandi við þessi viðskipti er m.a. rétt að hafa í huga eftirfarandi atriði, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og kemur fram fyrir hönd ríkisins á aðal- og hluthafafundum. Stjórn og starfsfólk Bankasýslu ríkisins eiga hvorki að taka þátt í daglegum rekstri fyrirtækjanna né hafa áhrif á ákvarðanir þeirra utan hefðbundinna samskiptaleiða sem tengjast félagsformi hvers fyrirtækis …“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Fjármálafyrirtæki skulu koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja, úrlausn skuldavanda einstaklinga, sölu eigna o.fl. Mikilvægt er að slíkir ferlar séu skilvirkir og gagnsæir og birtir á heimasíðum fyrirtækjanna. Við þetta ættu fjármálafyrirtæki að hafa til hliðsjónar álit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008 …“

Viðskiptin með Vestia samræmast þeim meginmarkmiðum eigendastefnu ríkisins að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálamarkaðar, enda hætta á hagsmunaárekstrum til staðar innan bankans á meðan atvinnufyrirtæki eru í beinni eigu hans. Þá samrýmast viðskiptin þeim undirmarkmiðum eigendastefnunnar að fjármálafyrirtæki sem ríkið fer með eignarhlut í skuli haga starfsemi sinni þannig að rekstur þeirra sé skilvirkur og að markvisst sé unnið að endurskipulagningu þess rekstrar. Í eigendastefnunni er ekki fjallað um sölu eigna fjármálafyrirtækjanna með beinum hætti, en þó skal nefna að eigendastefnan gerir ráð fyrir því að fjármálafyrirtækin komi sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni.

Bankasýslan var upplýst um að til stæði þetta samstarf Landsbankans og Framtakssjóðsins daginn áður en það var tilkynnt. Bankasýslan tók hins vegar ekki þátt í þeirri ákvörðun á nokkurn hátt eða nefndum viðskiptum. Stjórnin fór yfir þetta eftir á á fundi og taldi í meginatriðum að þessir atburðir væru jákvæðir og þjónuðu því markmiði að endurskipulagning þessara fyrirtækja færi fram. Stjórnin lítur svo á að um sé að ræða ákvörðun um samvinnu öflugra aðila á viðskiptum á markaði með óskráð hlutabréf og að þeirri samvinnu verði ekki jafnað við sölu á einstökum fyrirtækjum, enda ekki um það að ræða að fara í einhvers konar útboð þegar aðilar ganga til samstarfs um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja með þessum hætti.

Spurningar 2–7 eru allar byggðar á forsendu sem fyrirspyrjandi gefur sér fyrir fram, að þarna hafi lög og verklagsreglur verið brotin. Því hafna ég.

1. Vissi ráðherra af kaupum Framtakssjóðsins áður en þau fóru fram?

Nei, enda ekki ástæða til og hefði ekki verið rétt, hvorki af Landsbankanum né Framtakssjóðnum, að tilkynna mér það. Hitt er annað að mér var óformlega kynnt af hálfu Framtakssjóðsins nokkrum vikum áður að hugmyndir hefðu komið upp um samstarf þessara aðila. Annað vissi ég ekki af þessu máli.

2. Samþykkti ráðherra að verklagsreglum væri ekki fylgt eftir eða gerði ekki athugasemdir við það?

Að sjálfsögðu ekki, svarið er þar með nei, enda telur Landsbankinn sig engar verklagsreglur hafa brotið og stjórn Bankasýslunnar er sammála því.

Það svarar að sjálfsögðu spurningunum sem á eftir koma. Þeir aðilar sem að þessu koma gangast ekki við því, kannast ekki við það að verklagsreglur og þaðan af síður lög hafi verið brotin. Þar af leiðandi ber að svara öllum spurningum hv. þingmanns — sem gefur sér þá forsendu — með einföldu neii. Bankasýslan hefur ekkert slíkt samþykkt, mér er ekki kunnugt um að Bankasýslan hafi í störfum sínum brotið nein lög eða neinar reglur og þar af leiðandi er einfalt að svara þessum spurningum.