Bankasýslan og Vestia-málið

Mánudaginn 08. nóvember 2010, kl. 16:15:02 (0)


139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa rætt málið og ég held að ég hafi verið sammála þeim öllum nokkurn veginn í flestu. Það er ótrúlegt, virðulegi forseti, að horfa hér á hæstv. ráðherra sýna þennan yfirgengilega hroka. Öllum eru ljós efnisatriði þessa máls, öllum ljóst að verklagsreglur voru brotnar, eins og hv. þm. Skúli Helgason fór ágætlega yfir.

Ég vek athygli á fréttum — ég ætla bara að lesa fyrirsagnirnar, virðulegi forseti:

„Lífeyrissjóðir kaupa eignir Landsbanka“, „Töldu ekki nauðsyn á opnu söluferli“, „Vildu ekki auglýsa eignasafn Vestiu“ og „Skilur ekki hvers vegna salan var ekki auglýst“.

Þetta voru fyrirsagnir frétta. Hér kemur hæstv. ráðherra og segir: Allt í plati, þetta er samvinna, ekki sala.

Allar þessar reglur, öll lögin, markmiðssetningin, allt saman skiptir bara engu máli, þetta er samvinna. Ég er búinn að fara aðeins yfir það og þetta er það sem ég ætla að nota á hv. Alþingi.

Meira að segja forstöðumaður Bankasýslunnar þrætti ekki fyrir það að verklagsreglur hefðu verið brotnar. Hæstv. ráðherra sem ræður því hvort stofnunin, Bankasýslan, sjái til þess að farið sé eftir verklagsreglum segir bara: Heyrðu, mér er bara nákvæmlega sama. Ég ræð þessu og þetta heitir samvinna í mínum huga. Þrátt fyrir að allir viti að hér var farið á skjön við allar reglur, farið gegn markmiðum laganna, skiptir það mig engu máli. Ég ræð og annað er fullkomið aukaatriði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki einu sinni að fara yfir það að það hvarflaði ekki einu sinni að hæstv. ráðherra í hroka sínum að svara fyrirspurnunum. Ég ætla ekki að teygja (Forseti hringir.) það neitt. Þetta mál er ekki búið, við munum fylgja því eftir því að það er algjörlega ólíðandi (Forseti hringir.) alltaf, og sérstaklega núna, að hæstv. ráðherra komi fram við þingið og þjóðina eins og raun ber vitni.