139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér er flutt er með ólíkindum, ekki vegna þess að sjónarmiðið sem á bak við hana liggur sé ekki fullkomlega heiðarlegt og lögmætt. Það eru margir sem eru einfaldlega á móti því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu og það er bara heiðarlegt sjónarmið. Mér finnst hins vegar dapurlegt hversu illa er haldið á þeim málstað í þinginu af hálfu þeirra sem telja sig málsvara andstöðunnar.

Hér leggur hv. þingmaður fram frumvarp sem er í reynd þrefalt brot á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hún sjálf tók virkan þátt í að semja. Það eitt út af fyrir sig sýnir hvernig á þessum málum er haldið. Þetta er náttúrlega svo vitlaus tillaga miðað við hvað þingið hefur samþykkt að út yfir tekur.

Hitt er svo annað mál að ég styð að þetta komi á dagskrá. Ég tel að það sé þarft að svona tillaga komi og verði felld í þinginu og hún verður felld. Ég tel að þeir sem hugsanlega voru með efasemdir gagnvart þessu ferli telji margir að það sé rétt að ferlið haldi eigi að síður áfram. Í öllu falli hefur hver þingmaður sem vill leyfi til að leggja fram tillögu jafnvel þó hún sé brot á þeim lögum sem viðkomandi þingmenn eru nýbúnir að samþykkja.

Það er eitt sem vakti athygli mína. Hv. þingmaður kynnti þessa tillögu með grein í Morgunblaðinu á sínum tíma. Aðalrökin í grein hv. þingmanns voru þau að skoðanakannanir sýndu að fólkið vildi að aðildarviðræðunum yrði kippt til baka. Um þetta fjallaði öll greinin. Hv. þingmaður er stundum seinheppin. Þennan sama dag birti Morgunblaðið skoðanakönnun sem sagði frá því að mikill meiri hluti þjóðarinnar, eða 62%, vildi að haldið yrði áfram með umsóknina. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju var hún ekki heiðarleg og sagði frá (Forseti hringir.) þessu líka í tölu sinni? Í grein sinni þegar hún var að kynna þetta voru skoðanakannanirnar aðalatriðið en nú skipta þær allt í einu engu máli. (Forseti hringir.) Getur það verið?