139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðlögunina sem hér er talað um þá lét ég þá skoðun koma fram í stuttri umræðu utan dagskrár í gær að það væri skoðun mín, byggð á samtölum og upplýsingum sem ég hef fengið frá Evrópusambandinu, að engar kröfur séu gerðar um að við lögum okkar löggjöf, reglur eða stofnanir að því sem á við — (Gripið fram í.) hv. þingmaður, ég er að lýsa viðhorfum og viðbrögðum sem ég hef fengið á fundum sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ekki setið og ég frábið mér svona vitleysisleg frammíköll, frú forseti. Í samtölum sem ég hef átt hefur ítrekað komið fram að ekki séu gerðar kröfur um að við aðlögum okkar löggjöf, reglur og stofnanakerfi að því sem gerist innan Evrópusambandsins áður en þjóðin tekur ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég sagði í gær að skilaboðin frá Evrópusambandinu væru misvísandi að því leyti að mér væri kunnugt um að aðrir hefðu fengið aðrar upplýsingar og þetta væri nauðsynlegt að fá á hreint. Ég vonast til þess að menn geti verið sammála um að það sé mikilvægt að við vitum nákvæmlega hvað við erum að tala um í þessu efni.

Hvað Króatíu snertir þá er það þannig að eftir stækkun Evrópusambandsins, þegar 10 ríki bættust við og mörg Austur-Evrópuríki, þá upplifði Evrópusambandið mikla erfiðleika við aðlögun ríkjanna vegna þess hve mörg ríki komu inn í einu og þau höfðu ekki stofnanauppbyggingu og innviði eins og þekktust á Vesturlöndum. Þau höfðu t.d. ekkert sveitarstjórnarstig mörg hver og flest þurfti að byggja upp frá grunni. Þess vegna voru þessar reglur settar.

Það hefur hins vegar ítrekað komið fram að það gildir nokkuð annað um Ísland vegna þess að við höfum þegar, í gegnum EES-samninginn og Schengen-samkomulagið, innleitt verulegan hluta af löggjöf Evrópusambandsins og þess vegna mundi annað verklag hljóta að eiga við í okkar tilfelli en hvað Króatíu snertir.