139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem fjallar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og aðildarviðræðuferli að Evrópusambandinu. Það hafa verið nokkrar umræður um þetta og sitt sýnist hverjum hvort í gangi sé aðlögun eða aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það er eðlilegt að margir í mínum flokki studdu að sótt væri um aðild og reyndar menn í öðrum flokkum studdu að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu. Síðan færu fram einfaldar samningaviðræður, samningadrög kæmu á borðið og fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðu samninganna. Kæmist þjóðin að því að við skyldum ganga í Evrópusambandið mundum við byrja á því að aðlaga okkur að regluverkinu sem biði okkar. Kæmist þjóðin hins vegar að því að það skyldi ekki gert þá yrði það ekki gert.

Það skýtur skökku við að ferlið hefur jafnt og þétt breyst úr því að vera aðildarviðræðuferli yfir í að vera aðlögunarferli. Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Til að mynda er þegar farið að gera kröfur um að byrja á því að breyta stjórnsýslu í landbúnaði. Við þurfum að fara að undirbúa að setja upp svokallaða greiðslustofnun vegna þess að greiðslukerfi landbúnaðarins í Evrópu er miklu flóknara og viðameira heldur en kerfið sem við búum við hér á landi sem hefur verið leyst með nokkrum einstaklingum. Greiðslustofnunin í Svíþjóð er um 600–700 manna vinnustaður. Við þurfum að byrja strax að vinna að landupplýsingakerfi vegna þess að greiðslur Evrópusambandsins byggja á ákveðnum landupplýsingum og öðru slíku. Við þurfum að setja upp markaðseftirlit og fleira í þeim dúr. Þetta þarf allt — eða réttara sagt það sem fram hefur komið á fundum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hjá Evrópusambandinu, nú síðast í framvinduskýrslu, er að þessi verkefni verða að fara í gang. Hins vegar hafa hæstv. utanríkisráðherra og fleiri haldið því fram að þetta þurfi ekki að gerast.

Mig langar að koma að framvinduskýrslu Íslands. Þegar ég fór að skoða hana rakst ég á framvinduskýrslu Króatíu sem er í sama ferli og Íslendingar. Í framvinduskýrslu Króatíu voru sett skilyrði fyrir því að hefja viðræður um ákveðna kafla og skilyrði fyrir því að loka viðræðum um ákveðna kafla. Það er ljóst að Króatía þarf að koma sér upp slíkri greiðslustofnun í landbúnaði áður en samningaviðræðum verður lokað í kaflanum um landbúnaðarmál. Við hljótum því að spyrja okkur hvort Ísland sé í öðrum viðræðum en Króatía, öðrum viðræðum en Tyrkland, öðrum viðræðum en önnur ríki sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu undanfarin ár. Það verður fróðlegt, þegar skilyrðin birtast, að sjá hvað hv. þingmenn sem haldið hafa öðru fram segja þá.

Til aðlögunarinnar eru einnig boðnir styrkir, svokallaðir IPA-styrkir. Það eru 4 milljarðar sem Evrópusambandið hyggst setja í styrki sem hugsaðir eru til að aðlaga íslenskt regluverk og íslenskt samfélag að Evrópusambandinu á meðan á ferlinu stendur. Þetta er gert með mótframlögum af hálfu íslenska ríkisins, 10–15%, sem leggja á fram annaðhvort með fjármagni, vinnuframlagi eða öðru. Það liggur ljóst fyrir að Evrópusambandið lítur svo á að við séum í aðlögunarferli. Það eru engin gögn sem benda til annars og í framvinduskýrslu Íslands lýstu þeir miklum áhyggjum yfir tvennu á Íslandi. Annars vegar því hversu aðlögun gengi hægt í ákveðnum málaflokkum landbúnaðar og sjávarútvegs og breytingu á stjórnsýslu þar. Hins vegar afstöðu Íslendinga til ferlisins sem er í gangi og Evrópusambandsins. Ég ætla að koma inn á það á eftir.

Ég hef verið í töluverðu sambandi við Norðmenn, m.a. þá sem muna aftur til 8. áratugarins og tóku þátt þegar Noregur sótti um ESB-aðild og 1994. Menn sem ég þekki þar hafa kafað ofan í ferlið á nýjan leik eftir að Íslendingar sóttu um aðild. Þeir hafa komast að því að ferlið er mun ítarlegra og dýpra en það var þegar þeir sóttu um aðild. Ferlinu var breytt eftir að Noregur felldi það 1994 og fært í þá átt, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á í sinni ræðu, að ríkið uppfylli lög og reglugerðir Evrópusambandsins meðan á viðræðuferlinu stendur. Það var gert í tvennum tilgangi. Norðmenn vilja meina að það hafi verið gert til að þeir fengju ekki fleiri nei eins og var í Noregi. Það er ekkert kappsmál hjá Evrópusambandinu að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóð gangi í Evrópusambandið. Það er ekkert eðlilegt að þjóðir sæki um aðild að Evrópusambandinu nema hugur fylgi máli. Hitt hafi verið vegna þess að ríki í Austur-Evrópu hafi þurft að gera þetta á lengri tíma eins og réttilega var bent á. Það er ljóst að ferlið sem Evrópusambandið býður upp á í dag er á þá leið að við eigum jafnt og þétt, með stuðningi Evrópusambandsins bæði fjárhagslegum og mannafla, að aðlaga okkur að Evrópusambandinu. Köflum verður ekki lokað áður en það gerist, þeir verða jafnvel ekki opnaðir áður og það mun skýrast þegar líður fram á næsta ár. Þetta er þvert á það sem var kynnt. Þó að þetta standi í nefndaráliti með óljósu orðalagi þá er það algerlega á skjön við það sem haldið var fram í umræðunni um málið.

Það var fjallað um málið með þeim hætti að hér ætti að fara í einfaldar aðildarviðræður. Síðan færi fram kosning meðal þjóðarinnar og eftir það yrði ráðist í aðlögunina. En í staðinn verða skilyrði sett áður en kaflar verða opnaðir. Við erum byrjuð að sjá skilyrðin koma áður en þeim köflum verður lokað. Við þurfum að uppfylla sem mest af þessum reglum og breytingum áður en það gerist. Síðan þegar samningurinn, nota bene, er tilbúinn þá erum við búin að aðlaga okkur. Hann mun verða borinn undir öll aðildarríkin og síðan þarf íslenska ríkisstjórninni að fullgilda hann. Svona er ferlið og að því loknu mun þjóðin segja sitt.

Við sjáum öll sem viljum sjá að ferlið er komið í algert öngstræti. Ég er ekki mótfallinn því að þjóðin fái að segja sitt í þessu máli. Ég er fylgjandi því að þjóðin fái að segja sitt en það verður þá að vera tryggt að ekki verði ráðist í nokkrar breytingar á íslensku regluverki og fengið verði upp á borðið hvaða undanþágum Íslendingar eiga von á og hverjum ekki og síðan geti þjóðin sagt sitt. Það er búið að snúa þessu öllu á hvolf.

Síðan er annar þáttur. Þessir IPA-styrkir eru ætlaðir til aðlögunar. Hinn þátturinn eða svokallaðir Taiex-styrkir sem greint var m.a. frá í blöðunum í gær. Styrkirnir eru ætlaðir til að bæta ímynd Evrópusambandsins á Íslandi. Það er eitt af því sem Evrópusambandið hafði miklar áhyggjur af í framvinduskýrslu sinni sem birt var nýverið. Það hlýtur að valda mönnum áhyggjum að Evrópusambandið ætlar á næstu tveimur árum að setja 155 milljónir í áróðursherferð. Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa það sem haft er eftir Timo Summa, formanni sendinefndar ESB á Íslandi, og er eitt af verkefnunum sem unnið er að núna:

„Við lítum á mismunandi hópa og hver afstaða borgarbúa eða fólks á landsbyggðinni er til aðildar.“ Þeir eru sem sagt í gagnasöfn með skoðanakönnunum og eru að borga fólki fyrir að koma suður o.fl. „Við viljum vita þetta svo við getum undirbúið kynningargögn í samræmi við það. Við viljum vita hvar eyður eru í þekkingunni og reyna í framhaldinu að leysa það.“

Þetta er loðið orðalag. Hitt er það sem Norðmennirnir bentu á og tengist þessu beint. Þeir hafa kynnt sér íslenska ferlið og eru í samstarfi við fleiri. Þetta er Nei-hreyfing ESB-andstæðnga í Noregi sem er 30 þúsund manna hreyfing með marga sérfræðinga innan sinna raða. Þeir segja að það sé mikill munur á því hvernig Evrópusambandið skipuleggur sig hér á landi miðað við það sem var í Noregi. Það er ljóst að þeir ætla að setja meira fjármagn í baráttuna og hún verði í líkingu við það sem var í seinni þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann á Írlandi þar sem Evrópusambandið keypti heilsíðuauglýsingar í miklu magni og beitti fjármunum óspart í þeirri baráttu. Ég held að hvort sem það verður þessi þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri réttast að samþykkja eða einhver önnur leið, að því fyrr sem menn átta sig á að málið er komið í öngstræti þeim mun betra. Þá fyrst er hægt að vinna sig út úr þessu. (Forseti hringir.) Þá er hægt að finna lausnir og leiðir hvernig við getum á lýðræðislegan hátt ráðið málið til lykta hér á landi.