139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi mótmæla þeim skoðunum hv. þm. Péturs H. Blöndals að þjóðin muni láta undan og skipta um skoðun vegna þess að málefnið verði kynnt af hálfu Evrópusambandsins. Sú skoðun gerir lítið úr þessari ágætu þjóð að hún geti ekki tekið sínar sjálfstæðu ákvarðanir á sama hátt og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur getað gert í gegnum tíðina. Mig langar að spyrja hann um það sem segir í greinargerðinni:

„Naumur og ósannfærandi meiri hluti á Alþingi fyrir aðildarumsókninni gefur ríka ástæðu til að kanna hug þjóðarinnar til málsins.“

Ég greiddi atkvæði með þeim aðildarviðræðum sem nú fara fram og ég stend enn að því jái mínu. Ég tel hvorki að ég hafi verið ósannfærandi sem ein af meiri hluta þingmanna né heldur hafi atkvæði mitt verið naumt. En mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi þessa: Komi fram mál á Alþingi sem hann telur að þjóðin sé andsnúin, án þess að hún hafi verið spurð, og hér sé naumur meiri hluti fyrir slíku máli á þingi, eins og er hér í ýmsum málum, er hann þá tilbúinn — vegna þess að öll mál á Alþingi skipta þjóðina máli — að leggja til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál þar sem er naumur meiri hluti og jafnvel ósannfærandi meiri hluti og að þjóðin fái að taka ákvörðun í slíkum málum? Eða er það bara stundum þegar það hentar málefninu sem þjóðin á að fá að taka ákvörðun?