139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja varðandi þessa tillögu að það sem ég sagði áðan er mín afstaða. Ég vona að ég sé ekki með tvískinnung eða neitt svoleiðis vegna þess að það leiðist mér. Ég vil alltaf hafa allt uppi á borðum og ekki vera með tvískinnung.

Mín afstaða er þessi: Ég er á móti því að fara með þetta mál núna í þjóðaratkvæðagreiðslu, að hætta sem sagt við aðildarviðræðurnar eða umsóknarviðræðurnar eða aðlögunarviðræðurnar, hvað sem fólk vill kalla það ferli sem við erum í. Ég er á móti því að það verði stöðvað hvort heldur er með þjóðaratkvæðagreiðslu eða öðruvísi. Þess vegna mun ég ekki greiða þessari tillögu atkvæði, það er alveg ljóst. Ef hún verður tekin til umræðu í nefnd mun ég líka skýra frá því að ég sé á móti því og ég mun segja: Ég mæli með því við Alþingi að það samþykki ekki þessa tillögu.

Nú er ég ekki það þingreynd að ég viti hvað gerist í utanríkismálanefnd, ég geri nú samt sem áður ráð fyrir að þar sé meiri hlutinn á því — ég ætla ekki að tala fyrir annað fólk, ég ætla bara að segja hvað ég held að verði — að ekki eigi að fara þá leið sem hér er lögð til. Kannski er hægt að afgreiða málið úr nefndinni þar sem meiri hlutinn segir nei og minni hlutinn segir já og þá kemur það aftur í þingsal. En ég mun aldrei greiða þessari tillögu atkvæði, hvorki í nefnd né hér á þingi.

Svo vil ég segja annað, af því að ég hef sagt að ég ætli að fara eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, að ég er að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um samning við Evrópusambandið, um samning sem liggur fyrir. Það er ekki einhver önnur þjóðaratkvæðagreiðsla, það er sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem ég hef sagt (Forseti hringir.) að eigi að fara fram og ég muni fara eftir.