139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega athyglisverðu ræðu sem hefur, að mínu mati, varpað nýju ljósi á þá atburði sem urðu í fyrra sem leiddu til þess að við fórum í þá ólukkuvegferð að hefja aðildarumsókn og aðlögun að Evrópusambandslöggjöfinni eins og hefur náttúrlega ekkert farið á milli mála.

Það sem hér er verið að segja okkur er að þessi niðurstaða hafi ekki verið fengin með eðlilegum lýðræðislegum hætti heldur í skjóli hótana og kúgana. Það er það sem kemur fram af lýsingu hv. þingmanns að niðurstaðan var fengin með hótunum og kúgunum. Það er verið að ganga hér miklu lengra en maður hefur nokkru sinni séð. Þingmenn leiddir hér í bakherbergi, ég segi ekki að þau hafi verið reykfyllt, send skilaboð um það að þeir hefðu líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér, reynt að beita þá hörðu til að tryggja að þeir greiddu atkvæði gegn sinni eigin sannfæringu. (Gripið fram í: Bara eins og hjá Davíð.)

Því var haldið mjög fram að með þessari ákvörðun í fyrra væri verið að opna á lýðræðislega möguleika fólks, þar á meðal almennings í landinu, til að taka afstöðu til aðildarinnar að Evrópusambandinu. Nú sjáum við að það var ekkert svoleiðis sem bjó þar að baki. Það var einfaldlega verið að knýja fram og kúga fram niðurstöðu þvert á vilja þingmanna. Það blasir við að meiri hluti alþingismanna var í raun og veru á móti því að samþykkja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Það var hins vegar knúið fram með þessu ofbeldi, þessum hótunum, þvert á vilja hv. þingmanna. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi sem ég hlýt að vekja hér athygli á og undirstrika. Þetta eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða.