Skuldavandi heimilanna

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 14:17:28 (0)


139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Skuldavandi heimilanna hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og í síðustu viku komu gögn frá nefnd sem átti að taka út stöðu skuldugra heimila. Þar kom í ljós að 73 þús. heimili skulda húsnæðislán í dag.

Því miður hefur ríkisstjórnin ekki sett út neinn neyslustaðal eða -viðmið um hvernig hin venjulega íslenska fjölskylda á að geta framfleytt sér en samkvæmt viðmiði Hagstofunnar má áætla að um 20 þús. af þessum 73 þús. heimilum í landinu glími við mikla erfiðleika við að ná endum saman.

Í þessari úttekt var einungis tekið tillit til húsnæðisskulda fólks en vaninn með bókhald íslenskra heimila er ekki sá að einungis húsnæðismál séu þar í skuldadálkinum. Fólk skuldar Lánasjóði íslenskra námsmanna, þúsundir Íslendinga skulda meðlagsgreiðslur, tugþúsundir Íslendinga hafa verið með bílalán, yfirdrátt og fleira mætti nefna. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur einungis tekið lítinn hluta út fyrir sviga er varðar skuldamál heimilanna.

Ég spyr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Hvenær í ósköpunum ætlar ríkisstjórnin að koma sér að því verki að taka heildstætt á vanda skuldugra íslenskra heimila? Getur það verið svo erfitt að kortleggja stöðu 300 þús. Íslendinga og reyna að sjá heildarumfang þessa vanda? Við erum eins og einn lítill bær í Bandaríkjunum.

Það eru 26 þús. Íslendingar á vanskilaskrá í dag. Hver dagur og hver vikan líður áfram í formi aðgerðaleysis og vandinn minnkar ekkert við þetta. Það er þess vegna eðlilegt að við spyrjum í kjölfar útkomu þessarar skýrslu: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera næst í því að koma til móts við skuldug heimili? Ætlar ríkisstjórnin ekki (Forseti hringir.) að fara að koma sér í það að meta heildarumfang þess mikla vanda sem blasir við okkur?