Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 15:24:01 (0)


139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn munum gera okkar til að vinna þetta mál hratt og vel í gegnum þingið. Ég vildi hins vegar nú í upphafi fá að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um setningar í 2. gr. frumvarpsins þar sem er talað um, með leyfi forseta:

„Fallist dómur á kröfuna skal það standa óraskað sem gert hefur verið í greiðslustöðvun fyrirtækisins eftir gildistöku laga nr. 44/2009. Að því leyti sem rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðast almennt af þeim degi er úrskurður um slitameðferð gengur skal á sama hátt miða við gildistökudag þeirra laga.“

Það væri ágætt að fá að heyra frá ráðherranum hvað þetta þýðir nákvæmlega, sérstaklega þar sem bankarnir hafa verið í ákveðinni meðferð og auglýstur hefur verið tiltekinn kröfufrestur og einhverjir jafnvel ekki náð að skila inn innan þess frests. Stendur það allt eða er möguleiki á að setja lög sem í raun gilda aftur í tímann? Reglulega hefur verið barið inn í okkur að ekki eigi að setja lög sem eru afturvirk því að þau geti verið brot á stjórnarskránni.