Vextir og verðtrygging o.fl.

Miðvikudaginn 17. nóvember 2010, kl. 16:35:01 (0)


139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér stórt mál, mjög stórt mál sem sett er fram til þess að leysa ákveðinn vanda, mjög stóran vanda. Mér finnst menn ekki almennt gera sér grein fyrir því hver vandinn er.

Nú er það svo að í þróuðu nútímaþjóðfélagi vilja menn hafa starfandi fjármálakerfi, banka til þess að lána bæði einstaklingum til húsakaupa, bílakaupa o.s.frv. og einnig til fyrirtækja til fjárfestinga, til að skapa atvinnu og annað slíkt. Þetta fjármálakerfi hefur verið í ákveðinni hættu. Dómur Hæstaréttar frá 16. júní sem sagði að öll gengistryggð lán væru ólögleg en sagði ekki jafnframt hvað ætti að gera við slík lán, setti upp þá stöðu að hvorki skuldarinn né kröfuhafinn, þ.e. bankinn, vissi hvað annar skuldaði og hinn átti. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi og það var ekki fyrr en 16. september, herra forseti, sem leyst var úr þessum vanda að heil þjóð — og ég held að það sé einsdæmi — að í þrjá mánuði vissi heil þjóð ekki hvort fjármálakerfi hennar stóð eða féll. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi ástand.

Reyndar má segja að gjaldeyrishöftin hafi kannski mildað þetta eitthvað en það vissi enginn hvort íslenska fjármálakerfið stóð eða féll eða hvort ríkissjóður stóð eða féll vegna þess að ef hann hefði þurft að borga það sem menn gátu ímyndað sér hæst hefði farið mjög illa. Ég skil því vel og hef fullan skilning á því sem hér er reynt að gera með þessu frumvarpi, og þó að ég gagnrýni ýmislegt sem kemur fram hér á eftir er það ekki vegna þess að ég skilji ekki nákvæmlega vandann sem um er að ræða.

Það er mikilvægur þáttur sem talað er um á síðu 9, með leyfi herra forseta:

„Með þeirri afmörkun er verndarandlag aðgerða löggjafans skilgreint afar þröngt, eða hið sama verndarandlag og nýtur stjórnarskrárbundinnar verndar skv. 71. gr. stjórnarskrár, þar sem er rétturinn til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ekki verður séð að vernd kröfuhafa skv. 72. gr. sé altækari eða virðismeiri en vernd heimilis og einkalífs skuldara skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar.“ — Sem fjallar um eignarréttinn.

Hann segir jafnframt að sé eignarrétturinn brotinn að einhverju leyti — það er hægt að taka eignarrétt af mönnum ef almenningsheill krefur en þá skuli bætur koma fyrir, þ.e. skaðabætur. Það er það sem málið snýst um og er kannski það hættulegasta við þetta frumvarp, að það verði litið á þetta sem eignarnám og að í staðinn komi bætur.

Þetta limbó sem hefur verið í gangi, vegna þess að þrír mánuðir liðu á milli dóma Hæstaréttar, gerir það að verkum að heimilin vita ekki hvað þau eiga. Þau vissu það ekki, vita það kannski eilítið betur núna en samt ekki nóg. Það er ekki hægt að skipta dánarbúum, ég get ekki séð það. Það er ekki hægt að skipta við skilnað, ég get ekki séð það. Komi einhvers staðar nálægt því búi eitthvað sem heitir gengistryggt eitthvað veit enginn hvert verðmæti þess er eða hve mikil skuldin er.

Sama gerist við gjaldþrot, það er ekki hægt að gera upp gjaldþrot. Þetta er náttúrlega algjörlega óþolandi staða og ég hvet alla aðila til þess að flýta þessu uppgjöri, flýta því að fá hreint borð. Þeir eru náttúrlega aðallega dómstólakerfið, dómskerfið, héraðsdómur og Hæstiréttur, sem hafa reyndar unnið hratt í þessum málum en alls ekki nægilega því að mér sýnist þurfa ein 20, 30 mál í viðbót til að taka á öllum þeim afbrigðum sem geta komið upp.

Í þessu frumvarpi er gerð tilraun til þess að laga þetta og það er, eins og ég segi, virðingarvert en mér finnst það vera dálítið varasamt. Menn gætu náttúrlega til þess að flýta uppgjörinu, svo ég komi inn á það því að ég tel að það sé bara þjóðhagsleg nauðsyn að ganga frá skuldum fyrirtækja, smærri fyrirtækja jafnt sem stærri, og gera þau upp þannig að þau geti farið að starfa. Eins þarf að ganga frá því að almenningur fari að fá ljós á það hvað hann skuldar. Í því skyni mætti hugsanlega setja inn fyrningar, fyrningar á slíkar kröfur sem eru gengiskröfur, þannig að skuldin, t.d. allir vextir og verðbætur fyrnist kannski fyrir næsta haust og síðan skuldin sjálf einu eða tveimur árum seinna. Það yrði óskaplegur hvati fyrir aðila til að ganga frá sínum málum, alla vega fyrir bankana.

Þá hefur líka komið fram gagnrýni á það að fólk segist ekki treysta útreikningum, það koma út alls konar útgáfur. Mér finnst að ráðuneytið eigi að setja upp almenna reiknivél í excel — það er ekki mikið mál að búa það til — þannig að hver einasti maður geti bara stimplað inn sínar greiðslur því að þetta gengur út á það, hvað greiddi hann og hvernig? Síðan vita menn náttúrlega vexti Seðlabankans. Slík reiknivél gæti nánast reiknað þetta út. Þá eru engar deilur um það, þá vita menn hvernig þetta er reiknað og hvernig það gerist. Ég skora á hæstv. ráðherra að setja í gang svona reiknivél í excel.

Frumvarpið breytir ákveðnum gengislánum í það að vera óverðtryggð með lægstu vöxtum Seðlabankans, vera verðtryggð með lánstíma miðað við fimm ár með lægstu verðtryggðum vöxtum Seðlabankans eða að menn geti verið með gengistryggð lán ef þeir eru með fyrirtæki og síðan er óvissa. Eftir sem áður er einhver hópur skuldara og kröfuhafa í óvissu og þarf að fara í dómsmál engu að síður.

Það sem er óeðlilegt við þetta frumvarp og ég er ekki alveg sáttur við varðar lánin sem eru ólögleg. Það er tekið á þeim ef notkunin er rétt og ef skuldarinn er réttur. Það er sem sagt háð notkun og skuldara. Ef menn keyptu fyrir þetta íbúð sem þeir búa í og kemur til útreiknings vaxtabóta er lánið meðhöndlað svona en ekki ef keyptur hefur verið fyrir það t.d. tjaldvagn. Ef þeir tóku lán út á bílinn var það í lagi en ef þeir tóku lán út á tjaldvagninn var það ekki í lagi, þá er það ekki leyst. Þannig að þetta er mismunandi, algjör tilviljun hvernig þetta er leyst. Auðvitað gátu menn ef þeir keyptu bíl og tjaldvagn annaðhvort haft lánið út á tjaldvagninn eða út á bílinn. Síðan eru bátar t.d. ekki inni í þessu, sem ég mundi setja jafngilt bílum, sérstaklega fyrir þá sem þurfa að fara á bátum í vinnuna, einstaka maður kannski, ég veit það ekki. Þetta er svona dálítil tilviljun. Síðan er viðhald íbúða og annað slíkt sem er spurning með.

Ég efast um að þetta frumvarp standist jafnræðisreglu vegna þessara tilviljana, ég verð bara að segja það, og sérstaklega að hafa bíla undir því að það getur varla verið að bíllinn falli undir friðhelgi heimilisins eða einkalífsins, en heimilið, jú vissulega. En það hvort friðhelgi heimilisins gangi framar eignarréttinum, ja, þá fer maður að velta fyrir sér hvort það sé nokkurn tíma hægt að bjóða upp íbúð vegna þess að þá er friðhelgi heimilisins raskað til að viðhalda einhverjum eignarrétti kröfuhafa. Það er alveg ný túlkun á Íslandi.

Ég gat um það áðan að skuldarinn getur verið einstaklingur og þá er það í lagi en ef hann er fyrirtæki er það ekki í lagi, þá er hans mál ekki leyst. Hvað með bændur sem oft og tíðum eru bæði einstaklingar og fyrirtæki? Hvað með trillukarla sem oft og tíðum taka veð á húsið sitt um leið og þeir keyptu það og um leið og þeir keyptu bát? Þetta finnst mér vera dálítið óljóst.

Ég er sammála því að menn þurfa að horfa dálítið til framtíðar og auðvitað vil ég ekki vera með forsjárhyggju en ég hef sagt það á undanförnum árum aftur og aftur að menn eiga að taka lán í sömu mynt og þeir hafa tekjur í, það er afskaplega einfalt, eða í hlutfalli við þá mynt sem þeir hafa tekjur í. Þetta ætti að vera, ég segi ekki kennt í grunnskóla en þetta er eitthvað sem fólk ætti að vera meðvitað um. Það er spurning um að lánveitendur upplýsi menn um þetta þó að ekki sé verið að taka fram fyrir hendur á mönnum. Þeir sem vilja spila Monte Carlo-leik og eitthvað slíkt og vilja taka áhættu og spila, að sjálfsögðu finnst mér að þeir megi það en það á að upplýsa þá um áhættuna.

Til framtíðar finnst mér að sveitarfélögin eigi ekki að taka lán í erlendri mynt vegna þess að þau hafa yfirleitt alls ekki tekjur í erlendri mynt, þau hafa tekjur í íslenskum krónum. Mér finnst reyndar persónulega, herra forseti, að sveitarfélög eigi bara ekki að skulda, það eigi bara ekki að leyfa þeim að skulda nokkurn skapaðan hlut. Það eigi frekar að leyfa þeim að hækka útsvarið alveg upp í topp eða meira en það í staðinn fyrir að skulda.

Ég geri mér alveg grein fyrir þeim vanda sem þetta frumvarp á að leysa, ég er í þeirri nefnd sem fær það til umsagnar, hv. efnahags- og skattanefnd sem því verður vísað til. Ég mun kalla eftir gögnum þar og vinna mjög vel að þessu vegna þess að ég skil alveg hvað menn eru að leysa með þessu frumvarpi. Það sem ég óttast mest er að litið verði á þetta sem eignarnám og að ríkið þurfi þá að borga skaðabætur sem geta orðið ansi háar. Við erum með ríkissjóð í mjög slæmri stöðu, það er verið að skera niður mjög illilega og jafnframt er verið að hækka skatta á fyrirtæki og heimili sem eru illa lemstruð fyrir, sem er bara stórhættulegt, og ég vil ekki að þetta frumvarp geri þá stöðu miklu verri. Hins vegar átta ég mig alveg á því hvað þessu frumvarpi er ætlað að leysa og ég mun reyna að vinna eins og ég get að því.