Raforkuverð

Mánudaginn 22. nóvember 2010, kl. 16:17:52 (0)


139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

raforkuverð.

130. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég treysti því að hæstv. forseti verði eins gjafmildur á ræðutímann og hún var við hv. síðasta ræðumann hér sem er hið besta mál vegna þess að við erum að ræða hér um afskaplega brýnt og mikilvægt mál. Hvar í samfélaginu í dag væri það meðtekið á milli húsa í sama botnlanga að önnur fjölskyldan borgaði 215 þús. kr. í raforkukostnað en í næsta húsi væru það 415 þús. kr.? Hvergi hér á landi. Það kemur einfaldlega við réttlætiskennd fólks að 36 þús. Íslendingar skuli búa við þessar aðstæður. Við horfum upp á það að enn frekar er verið að draga úr niðurgreiðslum til þessara heimila þannig að hlutfallslega borga þau hærra verð fyrir raforkunotkun sína og það gengur einfaldlega ekki upp.

Erum við ekki með þessu áframhaldi að búa til tvær þjóðir í þessu landi? Munurinn hefur í mörg ár ekki verið eins mikill á milli þessara heimila og þeirra heimila sem hafa aðgengi að heitu vatni. Við verðum einfaldlega að vinda ofan af þessu kerfi.

Hæstv. ráðherra sagðist vera að ræða við forustumenn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og ég fagna því. En ég hefði viljað sjá ákveðnari svör, að menn mundu setja á fót starfshóp með erindisbréf, með ákveðin markmið í huga um hvenær sá starfshópur ætti að skila af sér, með tillögum um það hvernig við gætum jafnað þennan mun vegna þess að mér finnst það ekki ganga að 36 þús. Íslendingar á 13 þús. heimilum borgi tvöfalt hærri kostnað vegna raforkunotkunar en afgangurinn af þjóðinni. Þetta gengur einfaldlega ekki upp.

Ég hvet hæstv. ráðherra til góðra verka og við í Framsóknarflokknum á Alþingi munum styðja það ef farið verður í vinnu við að jafna þessi lífskjör. Við erum oftar en ekki líka að tala um láglaunasvæði eins og hæstv. byggðamálaráðherra þekkir mætavel. Þetta er nokkuð sem við þurfum að breyta og við þurfum að gera það hratt. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að setja af stað (Forseti hringir.) formlegan starfshóp sem mun vinda ofan af þessu máli og mun vonandi þá skila af sér á tilsettum tíma. Við þurfum að hafa markmið í þeim efnum vegna þess að þetta mál er mjög brýnt.