139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér líður svo vel eftir að heyra ræðu hv. þingmanns, kreppan er búin og allt er miklu bjartara eftir að okkur var sagt að hagvaxtarspáin mundi ekki standast. En ég ætlaði ekki að ræða það, virðulegi forseti, heldur ætla ég að nota tækifærið og skiptast á skoðunum við þingmanninn um störf í fjárlaganefnd.

Ég er ekki sérstaklega kominn hingað til að setja út á störf hv. formanns fjárlaganefndar, þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um hvort við ættum ekki að framkvæma það sem við erum alltaf að tala um, að vinna með öðrum hætti í þinginu.

Fyrir þá sem ekki þekkja til eru mjög margar fagnefndir í þinginu þar sem við skiptum með okkur verkum þannig að við getum farið vel yfir mál hver annars. Þó er þar á undantekning sem snýr að fjárlögunum. Sú hefð hefur myndast að málefnanefndirnar fara mjög lauslega yfir það sem að þeim snýr og síðan koma þær með álit til fjárlaganefndar. Fjárlaganefnd ber síðan ábyrgð á vinnunni við alla þættina.

Ég var beggja vegna borðsins í morgun. Bæði sit ég í fjárlaganefnd og kom sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd. Ég flutti þar nefndarálit sem var orðið úrelt um leið og ég flutti það vegna þess að það liggur alveg fyrir að heilbrigðismálin eru í fullkomnu uppnámi og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að hann komi með nýjar tillögur á föstudaginn. Stjórnarliðinn sem var inni allan tímann var auðvitað mjög áhugasamur og sömuleiðis báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, en mér varð samt hugsað til þess hvort ekki væri skynsamlegra að vinna málin þannig að við nýttum betur krafta þingmanna, í þessu tilfelli þingmanna í hv. heilbrigðisnefnd, þannig að menn reyndu að vinna málin eins vel og hægt er. Það á svo sannarlega við í öðrum nefndum líka.

Þá væri í leiðinni t.d. hægt að svara þeim fyrirspurnum sem hv. þingmenn hafa beint til hæstv. ráðherra sem snúa beint að fjárlögunum þannig að við náum eins góðum árangri og mögulegt er.