Landsdómur

Miðvikudaginn 24. nóvember 2010, kl. 17:09:39 (0)


139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:09]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um landsdóm, nr. 3/1963.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laganna og byggjast þær á tillögum frá forseta landsdóms sem hann sendi ráðuneytinu í október síðastliðnum. Miða þær breytingar sem hér eru lagðar til að því að einfalda málsmeðferðina fyrir landsdómi.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði á um í lögunum að þeir dómendur sem byrjað hafa meðferð máls skuli ljúka því þó svo að kjörtímabil þeirra sé á enda.

Í 2. gr. laganna um landsdóm er fjallað um fjölda dómara í landsdómi og hvernig þeir eru valdir. Er þar m.a. gert ráð fyrir að átta dómendur af 15 séu kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Þannig háttar til nú að Alþingi kaus síðast aðalmenn í landsdóm árið 2005. Kjörtímabil þessara manna rennur því út á næsta ári. Til þess að ekki verði rof á umboði þeirra dómenda sem nú sitja í dómnum við meðferð þess máls sem nú liggur fyrir að flutt verði fyrir landsdómi, er lagt til að sama regla gildi um dómendur í landsdómi og gildir um dómendur í félagsdómi, þ.e. að þeir dómendur sem hafa byrjað meðferð máls skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda.

Í öðru lagi er lagt til að tekið verði fram hver taki ákvörðun um það hvort dómari uppfylli þau hæfisskilyrði sem talin eru í 3. gr. laganna leiki vafi á því að þeir uppfylli þau hæfisskilyrði. Þessi hæfisskilyrði eru: Að vera ekki yngri en 30 ára og ekki eldri en sjötugur, að vera lögráða og hafa forræði fjár síns, að hafa óflekkað mannorð, íslenskan ríkisborgararétt, heimili á Íslandi, að vera ekki alþingismaður eða starfsmaður í Stjórnarráðinu. Þá er einnig kveðið á um að þeir sem skyldir eða tengdir eru á tilgreindan hátt mega ekki sitja samtímis í landsdómi.

Í greininni er tekið fram að enginn sem ekki fullnægir skilyrðunum megi sitja í landsdómi. Það er hins vegar ekki kveðið á um hver taki ákvörðun um hvort viðkomandi uppfylli umrædd skilyrði leiki á því vafi að skilyrðin séu uppfyllt. Er hér lagt til að bætt verði úr og að forseta landsdóms verði falið að taka um þetta fullnaðarákvörðun.

Í þriðja lagi er lagt til að bætt verið við 8. gr. laganna ákvæði um hvernig með skuli fara ef kveða þarf upp rannsóknarúrskurði eða úrskurði um önnur atriði er varðar rekstur máls.

Í 8. gr. laganna kemur fram að aldrei megi setja landsdóm með færri dómendum en tíu, enda séu meðal þeirra a.m.k. fjórir hinna löglærðu dómara. Til að einfalda málsmeðferðina er lagt til að ákvarðanir um rannsóknaraðgerðir og önnur atriði er varðar rekstur máls verði tekin af forseta dómsins ásamt tveimur öðrum af hinum löglærðu dómurum landsdóms. Á sama hátt verði ákvarðanir um hvort leggja skuli hald á muni sem ætla má að hafi sönnunargildi í máli, ákvarðanir um hvort gera eigi húsleit eða hvort ákærði skuli tekinn í gæslu áður en landsdómur kemur saman, teknar á sama hátt, en eins og lögin eru í dag er gert ráð fyrir að dómsforseti taki slíka ákvörðun einn til bráðabirgða. Úrskurður hans verði síðan borinn undir landsdóm svo fljótt sem verða má.

Þá er í fjórða lagi lögð til breyting á 34. gr. laganna, en þar er fjallað um meðferð máls fyrir dóminum. Er þar kveðið á um að saksóknari flytji mál sitt munnlega að loknum yfirheyrslum þeirra vitna sem hann leiðir fram og að verjandi flytji munnlega vörn sína þegar vitni þau sem verjandi leiðir fram hafa verið yfirheyrð.

Í frumvarpi þessu er lagt til að málsmeðferðin verði í samræmi við aðalmeðferð sakamála þar sem munnlegur málflutningur sækjenda og verjenda er samfelldur.

Þá er í fimmta lagi lagt til að unnt verði að nýta nútímatækni til að hljóðrita skýrslur ákærðu og vitna og að um bókanir í þingbók fari eftir þeim reglum sem gilda um meðferð sakamála.

Að lokum er lagt til að þóknun dómenda og ritara landsdóms verði ákveðin af kjararáði í stað þess að landsdómur ákveði það sjálfur.

Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. Er ég þess fullviss að þar muni frumvarpið fá góða skoðun.