Stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 11:04:14 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisverður fundur sem ég og hæstv. utanríkisráðherra sátum með hinum NATO-þjóðunum. Þar var samþykkt ný grunnstefna sem allar NATO-þjóðirnar standa að og byggja á þremur megináherslum: Það eru sameiginlegar varnir, viðbrögð við fjölbreytilegum hættum og sameiginlegt öryggi. Það er athyglisvert sem þarna kom fram að verið er að draga úr áherslum á kjarnorkuvopn og jafnframt var áréttað aukið og náið samstarf við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar og sérstök áhersla á samstarf og samvinnu við Rússa. Sérstakur fundur, NATO-Rússland, markaði þar tímamót að mínu viti. Hlutverk Atlantshafsbandalagsins í afvopnunarmálum var áréttað og sérstaklega var bent á að bandalagið ætti að skapa aðstæður fyrir kjarnorkuvopnalausan heim.

Svarið er já, það er eining innan NATO, það var mjög góð eining á fundunum, bæði á NATO-Rússlandsfundinum, fundunum um grunnstefnuna og reyndar líka fundinum um Afganistan. Að því er Ísland varðar er óbreytt viðhorf til NATO þannig að á heildina litið er ég mjög ánægð með þann fund.

Varðandi það sem nokkuð hefur verið rætt, þ.e. um eldflaugavarnir, er töluverður munur á því sem samþykkt var þar og því sem var á borði NATO fyrir nokkrum árum. Þá voru Rússar mjög ósáttir við áætlanir varðandi eldflaugavarnir og töldu það ógna þeirra eigin öryggi. Ekki var gert ráð fyrir að kerfið næði endilega til allra ríkja bandalagsins. En um þá tillögu sem Obama hefur haft ákveðna forustu með, að byggja upp eldvarnakerfi fyrir landsvæði bandalagsríkjanna allra sem gæti varist langdrægum eldflaugum, (Forseti hringir.) varð góð samstaða á NATO-þinginu.