Kosning til stjórnlagaþings -- fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 11:10:20 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

kosning til stjórnlagaþings -- fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[11:10]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru þrjú grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga við aðkomu að kosningum: Í fyrsta lagi að sérhver einstaklingur kjósi sjálfur, hann geti ekki framselt kosningarrétt sinn. Í öðru lagi að sá sem ekki getur kosið sjálfur fái til þess aðstoð með aðkomu kjörstjórnar bæði til að veita aðstoðina og eins til að koma í veg fyrir að viðkomandi sé beittur nokkrum þrýstingi. Þriðja grundvallaratriðið er að virða mannréttindi. Þá hljótum við að hlusta á óskir og gagnrýni, ef henni er að skipta, frá samtökum fatlaðra, eins og við höfum fengið frá samtökum blindra hvað þetta snertir.

Við teljum að sú lausn sem við leggjum til samræmist núverandi lögum, en nú hefur verið dreift því frumvarpi sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefnir, til þess að styrkja lagagrunninn. Ég hef þegar komið frumvarpinu til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og er það (Forseti hringir.) mat manna þar að það yrði til að styrkja lagagrunninn. Ég legg til, hæstv. forseti, að orðið verði við þessum tilmælum (Forseti hringir.) hv. þingmanns, að málinu verði komið á dagskrá, að allsherjarnefnd verði kölluð saman og fulltrúar dómsmálaráðuneytisins (Forseti hringir.) verði kallaðir til. Ég tel að þetta mál hljóti að fá skoðun og hugsanlega afgreiðslu í dag ef þurfa þykir.