Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:04:36 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:04]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því eins og aðrir að þetta frumvarp skuli loks vera komið fram. Það hefur átt sér langan aðdraganda, mikil vinna liggur þar að baki og það hefur verið lengi í undirbúningi. En það er víðtæk sátt milli sveitarfélaga og ríkisins um tilfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og ég tel að náðst hafi víðtæk sátt um verðandi framkvæmd. Því tel ég að hv. félagsmálanefnd eigi að geta afgreitt málið með góðu vinnulagi fyrir jól þó svo að málaflokkurinn sé stór og mikill af því að undirbúningurinn hefur verið eins og raun ber vitni.

Það er mikilvægt að færa nærþjónustu fólks með fötlun og aldraðra til sveitarfélaganna. Nærþjónustan er mikilvæg. Það er miklu meiri nánd og meiri líkur til að hægt sé að samþætta þá þjónustu við félagsþjónustu sveitarfélaganna og samþætta þjónustuna við heilbrigðisþjónustuna á viðkomandi svæði þannig að fólk með fötlun fái heildstæðari og betri þjónustu en það fær í dag.

Ég tel líka að mikilvægt sé að huga að því að jafnframt því sé komið upp stofnunum eða þær stofnanir styrktar sem eru miðstöðvar sérfræðiþekkingar, sérfræðiþjónustu og upplýsinga þannig að sveitarfélögin geti leitað á einhvern ákveðinn miðlægan stað til að fá stuðning í þeim verkefnum sem fyrir liggja. Ég held að það sé ógerningur og ekki eðlilegt að hvert þjónustusvæði þurfi að byggja upp sína eigin sérfræðiþekkingu í ólíkum málaflokkum og fyrir sveitarfélög af mjög ólíkri stærð. Eins er mikilvægt að við stuðlum að því að þjónusta við fatlaða sé fjölbreytt og að komið verði á þeirri einstaklingsbundnu þjónustu sem upp hefur verið lagt með frá Alþingi með þeirri samþykkt sem hér hefur verið gerð. Ég held að hægt sé að að stuðla að mun fjölbreyttari þjónustu en verið hefur. Ég tel að miklir möguleikar séu hjá almennri félagsþjónustu sveitarfélaganna til að bæta þjónustuna og hafa hana fjölbreyttari við fólk með fötlun.

Hæstv. forseti. Ég minni á að fyrir dyrum stendur það verkefni að koma á framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla. Það er vinna sem búin er að vera í gangi í nokkurn tíma. Við þurfum líka að breyta lögum og reglugerðum sem að því lýtur. Ég hef fullan skilning á því að ráðuneytin hafa verið mjög upptekin í þeim hrunadansi sem hér hefur verið og hefur það lagst þungt á öll ráðuneyti að vinna sig fram úr því efnahagshruni sem dundi á íslenskri þjóð ásamt öðrum breytingum sem verið er að gera í flestum ráðuneytunum, ekki síst í félags- og heilbrigðisráðuneytinu þar sem verið er að sameina þau tvö ráðuneyti. En það er brýnt að fara í framkvæmdaáætlunina og koma hugmyndafræði um aðgengi fyrir alla inn í lagabálka og reglugerðir. Það auðveldar okkur öllum — ekki eingöngu fötluðum heldur okkur öllum — að hafa betra aðgengi. Það auðveldar öldruðum og það sparar fjármagn að þurfa ekki að breyta götum eða húsnæði eftir á til að aðlaga að þörfum allra í umferðinni og í byggingum.

Eins þurfum við að einhenda okkur í að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Ég tel að það sé næsta brýna verkefnið sem snýr að Alþingi. Í framhaldi af því, þegar við höfum fengið þann ramma, eigum við að fara í lagabálkana og tryggja að allir sitji við sama borð og að mannréttindi fatlaðra séu virt.

Eins vil ég taka undir það sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns að það er mikilvægt að tekjur, fjármagn, fylgi málaflokknum. Mér sýnist að reynt sé að tryggja það núna með fjárlögum næsta árs. Ég tel mikilvægt að endurmat á starfsemi og kostnaði liggi fyrir fyrir árslok 2014 og að sérstaklega sé tekið tillit til þess ef frekari skyldur eru lagðar á sveitarfélögin.