Málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:11:07 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég tek undir þau sjónarmið sumra hv. þingmanna sem tekið hafa til máls, að vísast hefði verið betra að það hefði komið fram nokkru fyrr. En ég vek engu að síður athygli á að hv. félags- og trygginganefnd hefur á þessu haustþingi átt samtöl og haldið fundi þar sem þessi málefni hafa sérstaklega verið til umræðu, m.a. hefur hún rætt við fulltrúa úr ráðuneytinu og við fulltrúa sveitarfélaganna þar um.

Ég lít svo á að í flutningi málaflokksins felist tækifæri sem er afar mikilvægt að nýta vel. Sveitarfélögin fá þarna kærkomið tækifæri til að leita hagræðis í samlegðinni sem verður af því að reka saman félagsþjónustu sveitarfélaganna og þá þjónustu sem verið hefur á vegum svæðisskrifstofanna vegna þessa málaflokks. Það er að mínu viti afar mikilvægt.

Þó má ekki gleyma því að full samlegðaráhrif af því að flytja nærþjónustu til sveitarfélaganna verða ekki fyrr en flutningur málaflokksins málefni aldraðra til sveitarfélaga verður að raunveruleika og það er næsta skref sem við þurfum að taka, eins og við höfum áður rætt um í þessum sal. Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir því.

Ég tel að sá samningur sem fyrir liggur milli sveitarfélaganna og ríkisins, þ.e. um þau fjárframlög sem fylgja munu málaflokknum miðað við það árferði sem við búum við núna, sé sennilega sá besti sem báðir aðilar gátu landað. Endurskoðunarákvæðin sem eru í samningnum skipta líka máli, þ.e. að eftir þriggja ára reynslutíma verður reynslan af flutningnum endurskoðuð sérstaklega með tilliti til fjárveitinga og þeirrar fjárhagslegu stöðu sem sveitarfélögin verða þá í vegna yfirtökunnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal sem ræddi aðeins áðan um að huga þurfi sérstaklega að stofnunum innan þessa málaflokks sem njóta ákveðinnar sérstöðu, þar á meðal stofnunum eins og Sólheimum í Grímsnesi, og gæta þess að flutningurinn á þeim stofnunum fari vel fram. Það er sérstaklega mikilvægt þegar við hugum síðan að því að flutningur á málaflokknum málefni aldraðra verður á næsta eða þarnæsta ári að um er að ræða mjög margar stofnanir með svipaða stöðu og Sólheimar sem flytjast munu til sveitarfélaganna. Þess vegna er mikilvægt að mjög vel takist til.

Ég hlakka til að takast á við það verkefni að klára þetta mál í félags- og trygginganefnd á þeim vikum sem eftir eru af þinghaldi. Ég tel að miðað við þá samstöðu og þann samhug sem verið hefur í félags- og trygginganefnd á þessu hausti, þvert á allar pólitískar línur, eigi það vel að vera hægt. Ég hef ekki trú á öðru en að nefndin nái að leysa verkefnið innan þeirra tímamarka sem henni eru ætluð og það verði til farsældar bæði fyrir ríki og sveitarfélög þegar flutningurinn verður að veruleika.