Fjáraukalög 2010

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 14:49:28 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú má vera að meiri hlutinn hafi verið heldur bjartsýnn í nefndaráliti sínu. Það verður samt ekki horft fram hjá því hve nauðsynlegt er að meiri agi ríki varðandi ríkisfjármálin og að stofnanir standi sig betur. Við vonumst til og sjáum vísbendingar um að fleiri stofnanir haldi sig innan fjárlaga núna á árinu 2010 en áður hefur verið og það er vel. Við gerum auðvitað alvarlegar athugasemdir við að rekstraráætlanir séu t.d. ekki til taks hjá þessum fjölda stofnana. Það er algerlega óásættanlegt.

Varðandi vinnulag er, eins og hv. þingmaður þekkir, hópur starfandi innan fjárlaganefndar sem á að fjalla um framkvæmd fjárlaga. Sú vinna hefur legið niðri á meðan annirnar eru akkúrat núna en strax að þeim loknum, núna á árinu 2010, geri ég ráð fyrir að við einbeitum okkur að því að endurskoða allt vinnuferlið og aðkomu Alþingis að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga.