Setning neyðarlaga til varnar almannahag

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 18:27:43 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um setningu neyðarlaga til varnar almannahag. Mig langar að tæpa á hugsanlegum efnahagslegum afleiðingum þess ef tillagan yrði samþykkt. Fyrst og fremst er rætt um að höfuðstóll húsnæðislána verði leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins um áramótin 2007–2008. Þetta hefur verið ein af kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna m.a. og hefur verið mikið í umræðunni.

Á þeim tíma var m.a. rætt af fullri alvöru hvort aftengja ætti vísitölu neysluverðs tímabundið eða aftengja verðtrygginguna tímabundið til að fyrirsjáanleg hækkun hennar mundi ekki valda heimilunum miklum erfiðleikum. Frá þeirri leið var fallið m.a. að kröfu formanns Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnssonar. Það er sennilega einhver versti óleikur sem nokkurn tíma hefur verið gerður launþegum og launþegahreyfingunni á Íslandi þegar formaður ASÍ hafnaði því að fara þá leið. Því að hér sitjum við enn nærri tveimur árum síðar með heimilin og þúsundir manna í miklum erfiðleikum og þúsundir á vonarvöl vegna þess að menn ráða ekki lengur við skuldir sínar. Sýnt hefur verið fram á með hvaða hætti leiðrétting á höfuðstól lánanna geti gengið fram og hún þurfi ekki að lenda á skattgreiðendum né á þeim sem taka nú sem stendur út lífeyri hjá lífeyrissjóðunum.

Skipuð var heilmikil reiknimeistaranefnd af hálfu hæstv. forsætisráðherra sem skilaði af sér skýrslu sem hæstv. forsætisráðherra ætlar svo að byggja einhvers konar úrlausn á. En í þeirri skýrslu eru undanskildir 700 milljarðar af skuldum heimilanna þannig að niðurstaða hennar hlýtur alltaf að verða röng. Tekin eru inn þau lán sem eru sannanlega vegna íbúðarkaupa, um 1.300 milljarðar, en allar aðrar skuldir heimilanna eru skildar eftir og ekki teknar með. Það gefur einfaldlega ranga mynd af skuldastöðu heimilanna. Ef allar skuldir þeirra eru teknar með í reikninginn kemur í ljós að um eða yfir helmingur allra heimila á Íslandi á við umtalsverðan skuldavanda að etja og tugþúsundir heimila eiga jafnvel við greiðsluvanda að etja.

Þetta er mjög alvarlegt mál þegar ríkisstjórnin gengur fram með þessum hætti og vinnur á þessum nótum. Í hagfræðinni og líkanafræðinni er stundum sagt einfaldlega: Garbage in, garbage out. Þegar þú tekur svona rangar upplýsingar inn í útreikninga færðu einfaldlega ranga niðurstöðu.

Sú leiðrétting sem við höfum talað fyrir og er talað fyrir í þessu frumvarpi mun skila sér strax til einstaklinganna. Hún mun skila sér í því að einkaneysla þeirra mun örvast. Það er athyglisvert að í þjóðhagsspám sem hafa verið að koma út undanfarið er ekki gert ráð fyrir að hagvöxtur komi mikið frá fjárfestingu heldur fyrst og fremst frá einkaneyslu. Ef haldið verður áfram að þrengja að einkaneyslunni í samfélaginu með skattahækkunum t.d., eins og gert er ráð fyrir í núverandi fjárlagafrumvarpi, mun ekki verða sá hagvöxtur sem gert er ráð fyrir vegna þess að einkaneyslan mun einfaldlega standa í stað.

Slík leiðrétting mundi líka auka fólki bjartsýni, það mundi gefa því von um að sjá fram úr vandanum næstu ár og það þurfi ekki að vera nánast á horriminni ár eftir ár. Ég er sannfærður um að sú réttlætishugsun sem mundi birtast í slíkri leiðréttingu mundi gera það að verkum að fólk í stórum stíl mundi bretta upp ermarnar og segja: Ókei, nú erum við komin í gang aftur, nú skal ég láta til mín taka í samfélaginu.

Í framhaldinu þarf að sjálfsögðu að afnema verðtryggingu á lánum og verðtryggingu almennt. Þó er æskilegt að heimildir verði eftir fyrir ríkissjóð til að gefa út mjög löng verðtryggð skuldabréf til langtímafjárfestinga. Verðtryggingarumhverfið sem við höfum búið til er nú búið að setja samfélagið nánast á hausinn í annað skipti á 25 árum og ég á erfitt með að sjá fyrir mér nokkurt annað þjóðfélag sem mundi einfaldlega gera sjálfu sér þetta. Þetta gerum við samt hér á Íslandi og virðast ekki vera uppi nein áform um að gera hlutina öðruvísi. Og það er kannski það alvarlega. Þetta eru því mjög brýn atriði sem nefnd eru í þingsályktunartillögunni.

Afnám verðtryggingar mundi koma á miklu eðlilegra fjármálalífi og miklu eðlilegra efnahagslífi þar sem áhætta yrði einfaldlega eðlilegur þáttur af öllum viðskiptum, hvort sem um væri að ræða fasteignakaup eða lánastarfsemi. Eins og staðan er núna er áhættan öll lántakendamegin og það eru einfaldlega óeðlileg skilyrði fyrir fjármálakerfið og hagkerfið að búa við og óásættanleg skilyrði að sjálfsögðu fyrir neytendur.

Einhverjir munu án efa lenda illa í kreppunni sem nú ríður yfir og við gerum okkur ljóst að leiðrétting á höfuðstóli lána mun ekki hjálpa öllum. Margir eru einfaldlega í það miklum ógöngum að þeir munu tapa heimili sínu og húsnæði sínu og jafnvel verða gjaldþrota. Í þingsályktunartillögunni er gerð sú krafa að tryggt verði að það fólk fái húsnæði, fái helst að halda sínu húsnæði áfram og verði alls ekki borið út eða svipt húsnæði sínu nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomandi sé tryggt viðunandi húsnæði.

Hér er líka gert ráð fyrir ákveðinni lágmarksframfærslu. Það hefur háð Íslandi um langa tíð að hér hefur ekki verið til neitt opinbert framfærsluviðmið. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur verið með eitt, Tryggingastofnun hefur verið með eitt þannig að þetta er hingað og þangað um kerfið. Hér þarf að fara af stað alvöruvinna við að útbúa ákveðin lágmarksframfærsluviðmið sem taka mið annars vegar af algildum fátæktarmörkum og hins vegar af fátæktarmörkum sem að einhverju leyti eru afstæð, þ.e. taka mið af því sem aðrir hafa almennt í samfélaginu. Fólk getur þá búið sér til mynd af því hver efnahagur landsmanna er og hvar kreppir mest að og hvar mesta þörfin er. Þetta hefur ekki verið gert og ekki eru fyrirliggjandi neinar áætlanir um þetta nema maður heyrir óljósar fréttir af því einstaka sinnum að hin og þessi stofnun sé að útbúa einhvers konar framfærsluviðmið. Það vantar stefnu í þessum málum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra og háttsettur maður í ríkisstjórninni fylgist hér með af mikilli athygli og geri þá væntanlega ráð fyrir, úr því að vöntun er á öðrum stjórnarliðum í þingsalnum, að þessum tillögum verði komið á framfæri við ríkisstjórnina. Ef ég man rétt þá er ríkisstjórnarfundur í fyrramálið þannig að þetta mun væntanlega eiga greiða leið þangað inn.

Þetta er mikilvægt mál, það er alvarlegt ástand á Íslandi og það er að versna. Það er enn að hægja á hjólum atvinnulífsins, það er merkjanlegur umtalsverður samdráttur í verslun og þjónustu á seinni hluta ársins sem enn er ekki kominn fram í hagtölum. Þeir sem einfaldlega labba um í verslunarmiðstöðvum og reka þar sjoppur sínar hafa bent á að enn er að hægja umtalsvert á. Það er brýnt mál að hjól atvinnulífsins og efnahagslífsins komist aftur í gang.