Setning neyðarlaga til varnar almannahag

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010, kl. 18:51:23 (0)


139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

setning neyðarlaga til varnar almannahag.

96. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur verið um þessa ágætu tillögu okkar. Eins og ég sagði í máli mínu áðan hefur ýmislegt gerst síðan tillagan var lögð fram.

Þann 4. október þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína voru mikil mótmæli og þá hrökk eitthvað í gang og ríkisstjórnin fór að reikna út tveggja ára gamalt reikningsdæmi. (Gripið fram í.) Já. En óðagotið var náttúrlega slíkt að það gleymdist að taka 1/3 skulda heimilanna með í reikninginn á því dæmi. Niðurstöðum af þessari reiknivinnu og tillögum í kjölfar þeirra var lofað í næstu viku eða eftir helgi. Nú eru 52 vikur í árinu, það er vel þekkt staðreynd. Hins vegar er önnur staðreynd að það eru ekki sérstaklega margar vikur eftir af þessu ári. (Gripið fram í.) Við veltum fyrir okkur hvaða helgi eða hvaða vika þetta er sem er alltaf verið að tala um þegar við eigum að fá einhvern botn í þessi mál.

Við höfum reynt að vinna í þessum samráðshóp eins og hægt er. Fyrir viku sendum við, fulltrúar þinghóps Hreyfingarinnar og þingflokks Framsóknarflokksins, forsætisráðherra bréf þar sem við óskuðum eftir fundi með hinum svokallaða fimm ráðherra hópi. Því bréfi hefur ekki verið svarað nema með því sem forsætisráðherra sagði í fyrirspurnatíma að hún hefði fengið bréfið og ætlaði að hitta okkur á morgun eða um helgina. Við höfum ekkert heyrt neitt meira. (Gripið fram í.) Það er spurning hvort sú helgi verður á þessu ári, (Gripið fram í.) eða hvað? (Gripið fram í: … til að hitta utanríkisráðherra?) Já, það mundi kannski ganga betur að hitta utanríkisráðherra, hvað veit maður?

Oft á svona erfiðum tímum eins og við lifum óskar maður þess eiginlega að hafa tímavél. Mér varð hugsað til þess við ræðu þingmannsins Tryggva Þórs Herbertssonar, öll tækifærin sem við misstum af til að gera rétt og leiðrétta á meðan það var tiltölulega auðvelt en ráðamenn skorti hugrekki til þess að stíga skrefið. Það er þess vegna sem titillinn á þessari þingsályktunartillögu er um setningu neyðarlaga og kallast á við neyðarlögin sem voru sett hér 2008 vegna þess að við teljum vera neyð og að hún verði enn þá meiri ef þetta verði ekki gert.

Eins og Þór Saari þingmaður benti á hefur hér ríkt séreignarstefna í húsnæðismálum og það eru skiptar skoðanir um hana. Ekki eru allir sammála um að það sé rétta leiðin. Hins vegar er það sú leið sem langflestir hafa farið og í okkar verðbólguþjóðfélagi hefur það reynst svo að húsnæði er eiginlega eina fjárfestingin, íbúðarhúsnæði fólks, sem það getur treyst á að eiga þegar það er orðið gamalt. Það er lífeyrir fólks. Fólk hefur litið svo á að að miklu leyti sé lífeyrir þeirra til efri ára fólginn í húseign sem það getur selt og minnkað við sig þegar börnin eru farin að heiman og það hættir að vinna og tekjur rýrna. Ég vorkenni lífeyrissjóðunum ekkert að þurfa að taka þátt í þessari aðgerð. Í fyrsta lagi hafa þeir tapað mun meiru í hruninu á áhættufjárfestingum en nokkurn tíma er rætt um hér þó að þær tölur liggi ekki fyrir. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur hefur talað um 25–30% tap. Hér erum við kannski að tala um 4% lækkun á eignum lífeyrissjóðanna. Ég get náttúrlega bara svarað fyrir mig persónulega og ég vil frekar halda húsinu mínu núna en fá 4% hærri lífeyri þegar ég er orðin gömul.