Ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á faglegu háskólastarfi

Mánudaginn 29. nóvember 2010, kl. 16:40:14 (0)


139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á faglegu háskólastarfi.

66. mál
[16:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Þetta mál sem hann nefnir er mjög mikilvægt, ekki síst á niðurskurðartímum. Þetta snýst um gæðakröfur, gæðin í háskólastarfi og líka akademískt frelsi — og við sjáum það til að mynda núna ef við horfum á umræðu um háskólamál, hvort sem við lítum til Evrópu þar sem er mikill niðurskurður og líka vestan hafs í Bandaríkjunum, að umræðan um þetta er alls staðar uppi. Hún er um akademískt frelsi og hvernig standa eigi vörð um það, ekki síst þegar kreppir að.

Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum reynt að beita faglegum viðmiðunum eftir fremsta megni. Við höfum meðal annars gert það með því að setja stefnu um opinbera háskóla með það að markmiði að stofna samstarfsnet með hugsanlega sameiningu í huga. Markmiðið er að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun við framtíðaruppbyggingu. Í öðru lagi að hagræða þannig að fjármunir nýtist sem best. Þá lítum við til þess þar sem gæðin eru mest. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Hugsunin á bak við netið er að aðrir einkareknir háskólar geti tekið þátt í a.m.k. hluta netsins og þannig hugsanlega náð fram ákveðinni hagræðingu. Hugsunin er sú að standa vörð um kjarnastarfsemina, kennslu og rannsóknir en reyna að spara í utanumhaldi og stoðþjónustu. Við vinnum nána verkefnisstjórn með framkvæmd stefnunnar og fylgjumst með framgangi verkefnisins.

Við höfum einnig lagt talsverða áherslu á gæðamál almennt. Það birtist til að mynda í nýsamþykktri stefnu Vísinda- og tækniráðs. Í samræmi við hana er búið að stofna gæðaráð sem er að öllu leyti skipað erlendum sérfræðingum sem munu halda utan um eftirlit með gæðamálum í íslensku háskólaumhverfi á næstu árum. Ég held að það sé mikið framfaraspor þegar við horfum á háskólastarf á Íslandi að hér sé í raun og veru kominn það sem við getum kallað óháður aðili til að skipuleggja gæðaeftirlitið.

Það er hins vegar ljóst að háskólar þurfa að mæta niðurskurði í ríkisframlögum með hagræðingu. Að svo miklu leyti sem aðhaldsaðgerðir þeirra brjóta ekki gegn lögum eða gildandi samningum hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið ekki íhlutunarrétt um einstakar ákvarðanir sem háskólar taka. Það á ekki síst við um sjálfstæðu háskólana en tillögur eru alltaf kynntar ráðuneytinu. Við leggjum áherslu á að staðinn sé vörður um kjarnastarfsemi skólanna og skólarnir hafi þá sýn hvar sé þeirra kjarnastarfsemi, hvar þeir ætli að byggja upp og ekki verði hvikað frá þeim gæðakröfum.

Ef við lítum til hins akademíska frelsis sem er eins og ég segi uppi á borði í akademískri umræðu um heim allan þessa dagana þá veita rammalög um háskóla frá árinu 2006 háskólum ákveðið sjálfdæmi um sína starfsemi. Lög um opinbera háskóla fjalla með aðeins ítarlegri hætti um hlutverk opinberu skólanna. Sjálfstæðu skólarnir starfa samkvæmt skipulagsskrá eða hlutafélagalögum og þeir hafa því óneitanlega lagalega meira frelsi hvernig þeir skipuleggja sína starfsemi. Í reglum sem háskólarnir hafa sett sér á grundvelli þessara laga er í öllum tilvikum kveðið á um rannsóknarfrelsi og mikilvægi þess að það sé tryggt. Síðan getum við sagt að í okkar reglubundna gæðaeftirliti með háskólunum er m.a. farið yfir hvort forsendur um akademískt frelsi séu uppfylltar.

Til viðbótar við þessar reglur um rannsóknarfrelsi sem byggjast á grundvelli laga hafa allir rektorar íslenskra háskóla skrifað undir yfirlýsingu, og hún var undirrituð í júní 2005 um forsendur og frelsi háskóla. Þar segir í inngangi: „Háskólum ber að standa vörð um akademískt frelsi sem felur m.a. í sér að einstaklingur geti stundað rannsóknir, kennslu eða nám án óeðlilegrar íhlutunar laga, stofnana eða félagshópa. Sá sem nýtur akademísks frelsis getur leitað þekkingar og tjáð sannfæringu sína án þess að eiga það á hættu að það bitni á starfsöryggi hans eða öðrum mikilvægum hagsmunum.“

Þessi yfirlýsing er gerð af háskólunum um það sem við höfum m.a. verið að ræða núna hvort ekki sé eðlilegt að við, löggjafinn, setjum þetta með sterkari hætti í lög, þ.e. við reynum að skilgreina hlutverk og akademískt frelsi með ítarlegri hætti í lagatextanum. Við höfum verið að rýna þetta í ráðuneytinu. Ef við lítum á lög nágrannaríkjanna um háskóla má í flestum tilfellum finna nánari skilgreiningar á þessu hlutverki, hvort sem við lítum til Svíþjóðar eða Noregs. Þar er lögð áhersla á rannsóknarfrelsi starfsmanna í lögum, aðferðafræði þeirra við rannsóknir, birtingu niðurstaðna og tjáningarfrelsi. Af því að nú stendur til að endurskoða lögin, m.a. út frá hlutverkagreinum, út frá þessu aukna samstarfi þá mun akademískt frelsi koma inn í löggjöfina. Ég átti fund í dag með rektorum háskólanna þar sem við kynntum þessar hugmyndir. (Forseti hringir.) Við stefnum að því með ítarlegri hætti eftir áramótin.