Kostnaður við niðurfærslu skulda

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 15:11:48 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Forseti. Ég skildi ekkert í svörum hæstv. forsætisráðherra hérna um Icesave. Er sem sagt tilfellið að það liggi fyrir drög að nýjum Icesave-samningi? Það eru þá fréttir ef rétt er.

Ég ætla ekki að spyrja um það sérstaklega heldur ræða aðeins um skuldamál íslenskra heimila. Nú er farið að skýrast hvað fólst í þessum mikla pakka ríkisstjórnarinnar sem tók tvo mánuði að setja saman. Það er raunar að skýrast að ósköp lítið nýtt felst í honum og jafnvel að menn séu heldur að bakka frá því sem fyrir var. Í gærkvöldi talaði ég við konu sem prísaði sig sæla fyrir að hafa stokkið á það að þiggja þessa 110%-leið eins og hún var áður en kom að samráði með ríkisstjórninni. Hún hafði sem sagt gefist upp á biðinni eftir leið ríkisstjórnarinnar og farið þá leið sem var þegar í boði. Hún taldi að nú stæði henni og fjölskyldunni þessi leið ekki lengur til boða af þeim sökum að það er búið að tekjutengja þetta þannig að 20% af tekjum, fyrir skatta vel að merkja, verði að renna í greiðslu eingöngu af húsnæðisláni til að menn eigi rétt á leiðréttingu.

Eftir aðkomu ríkisstjórnarinnar getur munað nokkrum krónum að fólk fái leiðréttingu lána upp á kannski 15 millj. kr. eða ekki neitt, munað örlitlu í tekjum. (Gripið fram í.) Jafnvel einni krónu, bendir hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson á. Þetta er náttúrlega algjörlega fráleitt og breyting til hins verra. Eina breytingin sem einhverju máli virðist skipta til hins betra er niðurgreiðsla á vaxtakostnaði en það liggur ekkert fyrir um hvernig á að útfæra það.

Þó að ég vildi gjarnan fá svör við hinum spurningunum líka er meginspurningin til hæstv. forsætisráðherra þessi: Er það rétt að kostnaðurinn við þessa niðurgreiðslu lendi á ríkinu nema ríkinu takist einhvern veginn að fá bankana eða einhverja aðra til að styrkja (Forseti hringir.) þetta verkefni? Gerir ríkið ráð fyrir að kostnaðurinn lendi á því?