Skattar og gjöld

Mánudaginn 06. desember 2010, kl. 18:12:20 (0)


139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

Skattar og gjöld.

313. mál
[18:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu og þessa síðustu ræðu. Varðandi lífeyrissjóðamálin vil ég aðeins upplýsa að það er rétt að gripið var til þess ráðs strax í árslok 2008, ef ég man rétt, að heimila lífeyrissjóðunum að gera upp miðað við 15% mun á eignum og skuldbindingum á meðan menn væru að ganga í gegnum eftirstöðvar hrunsins og rykið væri að setjast og staða lífeyrissjóðanna að skýrast og útkoma þeirra úr því. Sú mynd er auðvitað að gera það en það er þó þannig að enn er óvissa í vissum tilvikum um það hvernig hagsmunum lífeyrissjóða reiðir af í sambandi við skipti á búum og kröfur sem þeir hafa lýst o.s.frv.

Það er annars vegar þetta og hins vegar sú staðreynd að á miðju ári 2009 fór af stað víðtækt samráð eða voru lögð drög að víðtæku samráði aðila, aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og lífeyrissjóðanna, að því að setjast yfir framtíðarfyrirkomulag lífeyriskerfisins í landinu. Því starfi hefur miðað áfram og allir hafa verið við það borð þótt á ýmsu hafi gengið, við þekkjum spennuna sem er innan hópsins og kannski sérstaklega sambúðina milli opinbera kerfisins og hins almenna.

Vonir eru bundnar við að niðurstöður fáist úr þessu starfi á fyrri hluta næsta árs og sá sem hér stendur er ákaflega áhugasamur um að svo verði. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta er ástand sem við getum ekki framlengt nema í mjög takmarkaðan tíma. Það eru vissir kostir við það á meðan þetta gengur yfir og staða sjóðanna skýrist annars vegar og hins vegar þegar við höfum teiknað upp framtíðarfyrirkomulag í þessum efnum. Þó að ekki sé alveg kominn tími á það að menn gefi hér nýársheit ætla ég samt að gera það. Gangi allt að óskum hef ég hugsað mér að setja þetta verkefni í mikinn forgang á fyrstu mánuðum næsta árs og við reynum að stefna að því að helst fyrir mitt næsta ár liggi fyrir niðurstöður í þessu samstarfi sem hægt verði að hefja undirbúning að að búa í lög, þannig að við tökum á þeim hlutum sem við öll vitum að þarf að taka á hvað varðar framtíðarfyrirkomulag lífeyriskerfisins í landinu.