Fjárlög 2011

Miðvikudaginn 08. desember 2010, kl. 23:07:20 (0)


139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:07]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í þingsalnum í gær var talsvert rætt um bjartsýni. Einn hv. stjórnarþingmaður, Þráinn Bertelsson, bað formann okkar sjálfstæðismanna sérstaklega að gerast talsmaður ljóssins núna í svartasta skammdeginu. Það er von að hann leiti til okkar því ekki er ljósberann að finna í formanni hans eða flokki. Það hefðu nú kannski verið hægari heimatökin fyrir hv. þingmann að biðja um að einhverjar ljóstýrur yrðu kveiktar innan veggja stjórnarheimilisins. Þar ríkir svartnættið eitt eins og þetta fjárlagafrumvarp ber glöggt með sér.

Virðulegi forseti. Mikil og góð efnisleg umræða hefur farið fram í dag um fjárlagafrumvarpið og hefur frummælandi 1. minni hluta, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, farið efnislega yfir það ásamt fleirum. Það er ekki bjart fram undan því miður. Endurskoðuð þjóðhagsspá gefur ekki tilefni til bjartsýni eins og fram kemur í minnihlutaáliti hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, með leyfi forseta:

„Endurskoðuð þjóðhagsspá boðar ekki gott, fjárfesting hefur aldrei verið minni á lýðveldistímanum og erfitt er að sjá með hvaða hætti endurreisn á að fara fram þegar það virðist beinlínis vera á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að standa í vegi fyrir fjárfestingu á Íslandi — hvort sem er innlendri eða erlendri.“

Í þessari endurskoðuðu þjóðhagsspá er gert ráð fyrir 1,9% hagvexti á næsta ári en óveðursskýin hrannast upp. Þetta er í besta falli. Svo ég vitni aftur til álits minni hluta sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, með leyfi forseta:

„OECD er svartsýnna á hagvöxt en Hagstofa Íslands en hagvaxtarspá stofnunarinnar fyrir næsta ár hljóðar upp á 1,5% sem er um 0,4 prósentustigum lægra en endurskoðuð spá Hagstofu Íslands. Vegna þessa metur OECD það svo að tekjur ríkissjóðs séu ofmetnar um 15 milljarða kr. á næsta ári. Þá spáir Evrópusambandið að hagvöxtur verði einungis um 0,7% á næsta ári. Á sömu nótum er nýjasta hagspá Íslandsbanka, sbr. fylgiskjal III. Miðað við sömu forsendur og áður yrðu skatttekjur ríkissjóðs allt að 27 milljörðum kr. lægri …“

OECD spáir 15%, nei 1,5%, fyrirgefið, það væri nú óskandi að það væri 15%, 1,5% hagvexti og segir að ríkið ofmeti tekjur sínar um 15 milljarða. Evrópusambandið sem alla tíð hefur þótt fara með sannleikann a.m.k. hjá öðrum stjórnarflokknum, kannski einhverjum í Vinstri grænum, ég átta mig ekki alveg á því hvar þeir standa þannig að ég get ekki svarað því, en Evrópusambandið spáir ekki nema 0,7% hagvexti. 27 milljarða kr. munur er þarna, það er ekki lítið. Þetta virðist vera svona, vinnan við fjárlagafrumvarpið, við fjáraukalögin og annað. Þetta hleypur allt á milljörðum og enginn veit hvar þetta endar.

Virðulegi forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar út úr vandanum er ekki flókin. Hún felst aðallega í því að skattleggja öll landsins gæði til að reyna að auka tekjur ríkissjóðs. Svo mikið að mörgum þykir nóg um. Síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur hún hækkað skatta um 55 milljarða og ætlar að bæta í. Næstu skattahækkanir á almenning og fyrirtæki eru áætlaðar að gefi 10 milljarða til viðbótar. Einnig hefur hæstv. ríkisstjórn skapað mikla óvissu í einni af okkar undirstöðuatvinnugreinum sem er sjávarútvegur. Já, sjávarútvegurinn er atvinnugrein, þar eru afleidd störf. Það kemur kannski einhverjum á óvart.

Bara svona til að halda því til haga fyrir hæstv. ríkisstjórn, er ekki skynsamlegt að vega að grunnatvinnuvegi sem skapar gjaldeyristekjur og atvinnu í þessu landi, sérstaklega þegar illa hefur gengið hjá hæstv. ríkisstjórn að skapa ný störf og atvinnutækifæri.

Mig langar að taka undir það sem fram kemur í minnihlutaáliti hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, með leyfi forseta:

„Leið ríkisstjórnarinnar hefur verið að hækka skatta og leggja nýjar álögur á landsmenn, almenning og atvinnulíf. Dregist hefur úr hömlu að ganga frá fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja, sem leiðir af sér óvissu um hver munu þrauka kreppuna sem og um svigrúm þeirra sem það munu gera til athafna. Fyrirtæki í þeirri stöðu eru ekki líkleg til að fjölga störfum og ráða til sín nýtt fólk. Atvinnuleysi er ekki eina afleiðingin því að ýmsar blikur eru á lofti um fylgifiska þessa ástands: atgervisflótta og svarta starfsemi.“

Virðulegi forseti. Vonleysi er vandamál. Við það glímum við. En það er fleira sem vekur athygli. Þrátt fyrir að forsendur í þjóðhagsspá hafi versnað frá forsendum sem fram komu í þjóðhagsspá í júní, sem notuð var við gerð fjárlagafrumvarpsins, er því spáð að atvinnuleysi dragist saman um 1%. Fram kemur í þessari endurskoðuðu þjóðhagsspá, með leyfi forseta:

„Því má búast við að atvinnuleysi minnki nokkuð. Erfitt er þó að spá nákvæmlega fyrir um þróunina, ekki síst þegar horft er til breytinga á vinnumarkaði, þ.e. breytts vinnutíma, starfshlutfalls og atvinnuþátttöku útlendinga.“

Þarna gætir ekki alveg sömu bjartsýni og hjá hæstv. ríkisstjórn, en hæstv. ríkisstjórn hefur verið með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi að skapa ný störf eða skapa atvinnulífinu lífvænlegar aðstæður. Ég vildi að svo væri. Ég vildi að það gengi vel að skapa störf. Ég vildi að það gengi vel að koma fólki út á vinnumarkaðinn af því þar viljum við hafa fólkið, en það er ekki raunin. Hvers vegna er þá atvinnuleysi að dragast saman? Er þetta fólk kannski að fara úr landi?

Virðulegi forseti. Eins og hv. varaformaður fjárlaganefndar nefndi í ræðu sinni fyrr í dag kallaði hann eftir því að menn yrðu bjartsýnir og ættu ekki að talast niður. Þessu er ég sammála, sem er nánast það eina sem ég var sammála í ræðu hv. varaformanns fjárlaganefndar, nema þegar hann hrósaði minni hluta sjálfstæðismanna. Ég var mjög ánægð með það. Enda er ég þeim sammála í einu og öllu.

Það hefur alltaf verið styrkur Sjálfstæðisflokksins að tala af ábyrgð og koma fram með lausnir og tillögur, tillögur til breytinga þegar verið er að gagnrýna. Það er alltaf styrkur. Við segjum ekki: Þetta virkar ekki, þetta er vont. Heldur segjum við: Þetta virkar ekki vegna þess að — og komum með tillögur.

Fram kemur í minnihlutaáliti hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, með leyfi forseta:

„Aðhald í ríkisrekstri er mikilvæg forsenda áframhaldandi velferðar. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stefnir að hallalausum ríkissjóði árið 2013, en hefur að leiðarljósi að réttur landsmanna til grunnþjónustu í heimabyggð — heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntunar, sé tryggður. Í efnahagstillögum sjálfstæðismanna eru fjölmargar aðgerðir til að bæta rekstur ríkisins, en tryggja jafnframt velferð.“

Virðulegi forseti. Fram hefur komið að mikil vinna hefur farið fram í fjárlaganefnd og hefur samvinna þar verið góð og er það vel. Vonandi er hægt að byggja á því í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Ljósið sem hv. þm. Þráinn Bertelsson kallaði eftir í gær er sem sagt ekki að finna í þessu lagafrumvarpi, þvert á móti. Þriðja bylgja skattahækkana ríkisstjórnarinnar er að ríða yfir samhliða tilviljanakenndum, losaralegum og ómarkvissum niðurskurði ríkisútgjalda eins og t.d. í heilbrigðisþjónustu sem þingmenn stjórnarliða hafa útskýrt hversu mikið klúður var. Ég leyfi mér að segja án þess að vita neitt um það: Hversu mikið „copy/paste“, afsakaðu enska tilvitnun, hefur verið í excelskjali þeirra sem þetta framkvæmdu? Þegar við bætist algert hugmyndaleysi og framtaksleysi stjórnvalda þegar kemur að endurreisn atvinnulífsins sitjum við uppi með verstu hugsanlegu blöndu til að koma okkur út úr kreppunni.

Það besta sem þessi ríkisstjórn getur gert væri að játa ósigur sinn og fara frá. Ég veit að það er ekki að gerast, því miður. Þakka stuðninginn, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Það næstbesta væri að hún tæki efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna og gerði þær að sínum. Hér eru þær sem fylgiskjal með minnihlutaáliti þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Eins og margoft hefur komið fram í dag eru þetta tillögur sem bæði hv. varaformaður fjárlaganefndar og fleiri hv. þingmenn fjárlaganefndar sem tilheyra meiri hlutanum hafa tekið fagnandi og ætla að ræða á milli 2. og 3. umr. Því miður verð ég ekki hér til að fylgja þeim eftir, en ég vona að allir sem hafa komið og talað í dag séu tilbúnir að endurskoða fjárlagafrumvarpið af því að þetta gengur ekki.