139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta var dálítið óljóst svar eins og fyrr þegar ég hef spurt þessara spurninga í umræðum á þinginu um þessa tillögu sjálfstæðismanna. Þær skattahækkanir sem ég taldi upp áðan, þ.e. hækkun á tekjuskatti einstaklinga, almennt bensíngjald, hækkun upp á 12,5%, sérstakt bensíngjald, hækkun upp á 12,5%, olíugjald, hækkun upp á 12,5%, kílómetragjald, hækkun upp á 12,5%, áfengisgjald á bjór, létt vín, sterkt vín, hækkun upp á 12,5%, tóbaksgjald, hækkun upp 12,5%, bifreiðagjald, hækkun upp á 12,5% voru þær skattahækkanir sem ríkisstjórn sú sem hv. þingmaður sat í sem menntamálaráðherra greip til og tóku gildi 12. desember 2008. Það voru fyrstu viðbrögð þeirrar ríkisstjórnar við efnahagsáfallinu sem þá dundi á landinu og gripið var til til tekjuöflunar. Auk þess sem reynt var í því fjárlagafrumvarpi sem þá var til umræðu á þinginu að draga úr útgjöldum rétt eins og verið er að gera í dag, þ.e. að grípa til skattahækkana og grípa til útgjaldaminnkunar hjá ríkinu á sama tíma.

Hv. þingmaður, er Sjálfstæðisflokkurinn að tala um að afturkalla sínar eigin skattahækkanir sem hann greip til við upphaf og í kjölfar kreppunnar haustið 2008 eða eingöngu þær sem gripið hefur verið til síðan þá? Umræðan er dálítið skökk um þá skatta og hlutfall skatta í þjóðartekjum í ár miðað við það sem var á árum áður. Árið 2007 var tekjuskattur á lögaðila um 2,8%, er 1,11% í ár. Árið 2006 var tekjuskattur á einstaklinga 8,89% af vergri þjóðarframleiðslu en er 7,32% í ár. Skattar alls árið 2005 voru 32,65% (Forseti hringir.) af vergri þjóðarframleiðslu en 25,8% í ár. (Forseti hringir.) Þetta er sú viðmiðun sem gerir okkur samanburðarhæf við önnur lönd, (Forseti hringir.) þ.e. hve mikill hluti af tekjum og útgjöldum er af vergri þjóðarframleiðslu hverju sinni.