Fjárlög 2011

Fimmtudaginn 09. desember 2010, kl. 16:01:10 (0)


139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í þeim lið sem við erum að fara að greiða atkvæði um eru ýmsar aðgerðir um heilbrigðismálin. Það er verið að draga til baka að talsverðu leyti boðaðan niðurskurð og er það mjög vel. Það var farið yfir þetta mál í heilbrigðisnefnd og lagt mat á þörf á þjónustu víðs vegar um landið. Það var reynt að leiðrétta gjöld fyrir rými og það var líka tekið tillit til smærri eininga og svokallaðra útstöðva og lagt mat á stöðugildi sem þarf til að sinna þjónustunni.

Það er mitt mat að miðað við hvernig frumvarpið lítur út núna sé hægt að halda uppi eðlilegri heilbrigðisþjónustu í landinu á næsta ári. Ég tel hins vegar að það þurfi að gera mjög miklar kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni, sérstaklega í stofnanakerfinu, að það þurfi að sameina mun meira stofnanir en gert hefur verið og að til þess þurfi gríðarlega pólitískan kjark, bæði hjá ríkisstjórnarflokkunum og líka hjá stjórnarandstöðunni. (Forseti hringir.) Þetta er verkefni sem ég tel að við verðum að fara í á næstu árum til að nýta peningana betur og fá betri þjónustu út úr þeim.