Áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga

Mánudaginn 13. desember 2010, kl. 12:46:15 (0)


139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga.

242. mál
[12:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fer í spurningarnar aðeins í öfugri röð, það skýrir samhengi málsins betur. Þá er því til að svara að hv. þingmaður hefur verið duglegur að spyrja um þetta og svör við fyrirspurnum bæði frá 137. og 138. löggjafarþingi, sem sýna þróunina í þessu yfir lengri tíma, liggja fyrir. Í þeim svörum kom fram, og þau gilda, að störfum á vegum ríkisins hefur fjölgað hlutfallslega meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu sl. áratug. Ef tekið er saman hvar störfum á vegum ríkisins hefur fjölgað og fækkað mest síðustu 10 ár, skipt eftir kjördæmum, kemur í ljós að mest er fjölgunin í Norðvesturkjördæmi, eða um 160%, en í sama svari kemur fram að störfum hafi ekki fækkað í neinu kjördæmi landsins. Mismunandi mikil fjölgun var því í öllum kjördæmum og mest í Norðvesturkjördæmi.

Ef við lítum hins vegar aðeins nær okkur og til sl. 2–3 ára hefur starfsmönnum ríkisins að sjálfsögðu fækkað ef á heildina er litið, enda hafa forstöðumenn ríkisstofnana m.a. brugðist við niðurskurði með því að draga saman í starfsmannahaldi, t.d. með því að ráða ekki í stað þeirra sem hætta vegna aldurs eða skipta sjálfir um starf, dregið hefur verið úr yfirvinnu, afleysingum o.s.frv. Ef litið er á þessa þróun starfa frá 2008 og hún mæld í stöðugildum eða ársverkum, sem þýðir ekki endilega að sambærileg fækkun starfsmanna hafi orðið heldur að við mælum stöðugildin eða ársverkin, þá hefur þeim nú fækkað um tæp 5%. En þegar það er skoðað og brotið niður á svæði er ekki að sjá að neinn munur sé á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Það virðist dreifast nokkuð jafnt og er þá annarri spurningu hv. þingmanns þar með svarað.

Varðandi svo 1. töluliðinn og hvaða áhrif fækkun starfsmanna hafi á fjárhag sveitarfélaga og hver þau áhrif muni verða þá er því til að svara að sveitarfélög fá að sjálfsögðu útsvar af öllum launagreiðslum. Þau fá það óháð því hvort launagreiðandinn er ríkið, sveitarfélagið sjálft eða einhver annar. Vegna eðlis útsvarsins er það mismunandi eftir sveitarfélögum en að meðaltali er það um 13,1%. Það þýðir að útsvar til sveitarsjóðs er alltaf í nákvæmu hlutfalli við launagreiðslur og ríkið bætir það sem á vantar. Eðli þessara samskipta er þannig að sveitarfélögin fá því alltaf sitt útsvar og ríkið bætir það sem upp á vantar vegna þeirra sem ekki fullnýta persónufrádrátt. Þá gildir auðvitað einu hvort um er að ræða fækkun starfsmanna, minnkun launakostnaðar, minni yfirvinnugreiðslur eða annað. Að sjálfsögðu kemur það alltaf fram í heildarlaunagreiðslutölunni sem er andlag tekjuskattsins eða útsvarsins þannig að tekjustofninn tekur á sig eins og samdrátturinn verður á þessu sviði.

Útsvarsstofninn er veikur núna eins og við sjáum m.a. á því að 1,2% duga ekki alveg til að mæta að fullu kostnaði vegna yfirfærslu málefna fatlaðra þó að 1,07%–1,09% hefðu að meðaltali dugað fyrir nokkrum árum til að mæta sömu útgjöldum. Það er einfaldlega vegna þess að þessi stofn er í lægð núna. Vonandi er það að byrja að snúast við. Við sjáum vissar vísbendingar um það í uppgjöri síðustu mánaða ársins að tryggingagjaldsstofninn sé að ná áætlun aftur og það er ánægjulegt. En því er ekki að leyna að beinu skattarnir hafa verið veikir framan af árinu og það veldur nokkru fráviki frá tekjuáætlun sem á hinn bóginn er borið uppi af því að óbeinu skattarnir, veltuskattarnir, hafa gefið nokkuð umfram áætlun. Þetta virðist vera að leita jafnvægis á nýjan leik ef marka má vísbendingar úr allra nýjustu tölum október- og nóvembermánaðar en ber þó að hafa það með fyrirvara því að þær eru auðvitað bráðabirgðatölur.

Vonandi er þetta að byrja að rétta úr sér og þar með talið útsvarið. Einhver fækkun starfsmanna sem kann að verða hluti af aðhaldsráðstöfunum á næstu árum, ekkert síður hjá sveitarfélögunum sjálfum en hjá ríkinu, mun að sjálfsögðu hafa tekjuáhrif. Því verður ekki neitað og verður að takast á við það.