Áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga

Mánudaginn 13. desember 2010, kl. 12:51:18 (0)


139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

áhrif fækkunar ríkisstarfsmanna á fjárhag sveitarfélaga.

242. mál
[12:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætt svar hans og jafnframt lýsa yfir gleði minni yfir því að opinberum störfum úti á landi hafi ekki fækkað heldur þvert á móti á undanförnum árum og er það vel. Sóknarfæri landsbyggðarinnar hljóta að vera fólgin í því að fjölga þeim störfum rétt eins og öðrum og er gleðilegt að heyra svar hæstv. ráðherra við því.

Sá sem hér stendur er liðsmaður fjárlaganefndar og vill vekja athygli hæstv. ráðherra á nýsamþykktri tillögu í fjárlaganefnd þess efnis að samfélagsleg áhrif fjárlaga hverju sinni verði metin af þar til bærum rannsakendum. Byggðastofnun hefur verið nefnd í því sambandi, Háskólinn á Akureyri og fleiri rannsakendur sem ættu samkvæmt tillögunni að skoða samfélagsleg áhrif fjárlaga og þeirra breytinga sem þar eru hverju sinni á landið í heild sinni. Ég tel þetta vera mjög mikilvæga tillögu sem ber sjálfstæði fjárlaganefndar gagnvart framkvæmdarvaldinu ágætt vitni. Ég tel að þetta sé leið sem við eigum að fara á komandi árum við fjárlagagerð þannig að landsmenn allir sjái það nokkurn veginn í einu vetfangi hvernig fjárlög hvers tíma bitna, ef svo má segja, á fólkinu hringinn í kringum landið og hvernig hægt er með fjárlagagerð að breyta aðstæðum víða um land, í Reykjavík, á suðvesturhorninu og úti á landi. Við þá sanngjörnu aðgerð í allri fjárlagagerðinni sæju menn á hverjum tíma hvað breytingarnar hefðu í för með sér.