Heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka

Mánudaginn 13. desember 2010, kl. 12:55:56 (0)


139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka.

139. mál
[12:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég var nýlega með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar þar sem kom fram í svörum hans að ein af forsendunum fyrir því að hægt væri að bæta skattumhverfi frjálsra félagasamtaka væri sú að sett yrði heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Það var m.a. ástæðan fyrir því að ég taldi rétt að bera þessa fyrirspurn fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Félagaréttur fellur undir ráðuneyti hans en hins vegar hefur ráðherrann líka haft ákveðið frumkvæði að því að skoða þessi mál þegar hann var félagsmálaráðherra og var stofnuð nefnd sem mér skilst að hafi skilað af sér niðurstöðum.

Töluvert meiri umræða hefur orðið um starfsemi friðargeirans eða frjálsra félagasamtaka á Íslandi eftir að stofnuð voru samtökin Almannaheill sem eru samtök friðargeirans. Að þeim standa um 19 aðildarfélög mjög fjölbreyttra félagasamtaka. Það voru þrjú meginmarkmið sem þessi samtök höfðu með því að taka höndum saman. Það var að breyta skattalögum á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir yrðu undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum yrði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattsstofni, enn fremur yrði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar. Stefnan er að sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur og að unnið verði að því að bæta ímynd þeirra.

Ég hefði einmitt talið að allt þetta ætti að vera eitthvað sem hugnaðist núverandi ríkisstjórn. Það liggja fyrir tillögur á þingi sem hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og núverandi hæstv. dómsmálaráðherra fluttu á sínum tíma til að tryggja að almannaheillafélög þyrftu ekki að borga erfðafjárskatt. Ég held að það hafi einmitt verið hæstv. fjármálaráðherra sem tryggði að breytingar á skattkerfinu, þar sem einstaklingum væri ekki lengur heimilt að draga gjafir til félaga og samtaka frá tekjum sínum, yrðu ekki gerðar.

Hins vegar tel ég að það vakni svo sem ýmsar spurningar við að setja löggjöf um öll frjáls félög. Ef við horfum til annarra Norðurlandaþjóða eða þeirra grannþjóða sem við berum okkur einna helst saman við þá hefur ekki verið sett almenn löggjöf um starfsemi frjálsra félaga þar, heldur hefur mikið verið lagt upp úr félagafrelsinu og að starfsemin mótist fyrst og fremst af þeim samþykktum sem einstök félög gera.

Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvernig hann hyggst nálgast það að setja heildarlöggjöf fyrir frjáls félagasamtök og hverjar niðurstöður nefndarinnar voru.