Mannvirki

Þriðjudaginn 14. desember 2010, kl. 13:33:27 (0)


139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[13:33]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um mannvirki. Nefndin tók málið fyrir aftur að nýju eftir 2. umr. og fékk ýmsa á sinn fund. Það sem kom út úr því var þetta:

Nefndin ræddi orðalag a-liðar 1. gr. frumvarpsins en henni höfðu borist athugasemdir vegna breytinganna sem samþykktar voru við 2. umr. Athugasemdin var þannig að orðið „líf“ í frumvarpstextanum, og reyndar í gömlu lögunum, ætti við lífið á jörðinni almennt en ekki einungis líf manna. Þetta er ágæt athugasemd en við teljum að lífið á jörðinni hljóti að vera eitt af því sem felst í orðinu umhverfi og vísum þar á skilgreiningar á umhverfi, t.d. í lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um umhverfismat áætlana. Við höldum okkur við fyrra orðalag nema við skiptum um og viljum að í staðinn fyrir að segja „umhverfi og eignir“ þá skuli standa „eignir og umhverfi“. Við teljum að merking orðsins verði gleggri með þeirri breytingu.

Í öðru lagi tók nefndin fyrir athugasemd sem borist hafði við þá breytingu að möstur voru tekin með í upptalninguna í 2. gr. frumvarpsins. Athugasemdin var réttmæt því í ljós kom að í núverandi skipulags- og byggingarlögum er skýrt tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir fjarskiptamöstrum og tengivirkjum og móttökudiskum. Þetta ákvæði hafði af misgáningi, eftir alla þessa vegferð frumvarpanna, ekki skilað sér í mannvirkjalagafrumvarpið. Við leggjum til breytingar á viðeigandi greinum frumvarpsins til að koma þessu að.

Hér er auðvitað ekki átt við háspennumöstur eða því um lík mannvirki heldur það sem ég nefndi, fjarskiptamöstur, tengivirki og móttökudiska. Það er eðlilegt að byggingarleyfi þurfi fyrir slíkum mannvirkjum. Það veitir íbúum líka aukin tækifæri til að skipta sér af því hvort þau rísa eða með hvaða hætti en á undanförnum árum hafa komið upp ýmis mál þar sem íbúar hafa mótmælt og fundið að mannvirkjum af þessu tagi í grennd við sig.

Í þriðja lagi hlýddi nefndin á rök með eða á móti því að breyta skipan markaðseftirlits með rafföngum og flytja slíkt eftirlit alfarið frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Gert hafði verið ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar fyrir 2. umr. en þær tillögur voru kallaðar til 3. umr. Eftir umræður og íhugun komst nefndin að því að skynugast væri að halda óbreyttri skipan að sinni í þeim efnum, m.a. vegna þess að breytingar gætu dregið um of þrótt úr starfsemi Neytendastofu. Nefndin telur hins vegar að þessi mál þurfi að íhuga betur við endurskoðun og stjórnsýslu neytendamála sem nefndarmönnum þykir brýn þótt stutt sé síðan þar var unnið endurskoðunarverk og settar á fót stofnanir. Það hefur ekki reynst nógu vel. Nefndin lýsir sig reiðubúna til samstarfs um úrbætur á þessu sviði við hlutaðeigandi ráðherra og aðra þingmenn. Nefndin fellur af þessum ástæðum frá áðurnefndum breytingartillögum sínum.

Ég vil segja í tilefni af umræðu á þinginu og atviki, skulum við kalla það, hér um daginn, að við kölluðum að þessu sinni til okkar í upphafi umfjöllunarinnar um mannvirkjalagafrumvarpið Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu fjármála og rekstrar í umhverfisráðuneytinu, til að gera okkur grein fyrir kostnaði við málið sem nokkuð hefur verið ræddur. Milli 2. og 3. umr. gerði Hrafnhildur Ásta okkur þann greiða að festa niður á blað þá frásögn sem hún hafði komið með í upphafi. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að Mannvirkjastofnun fær tekjur sem eru eiginlega markaðar tekjur af því sem nú heitir brunavarnagjald en verður byggingaröryggisgjald. Undanfarið hefur háttað þannig til með þennan tekjustofn að hluti af honum verður að fjárveitingu til Brunamálastofnunar en annar hluti er færður á bundinn höfuðstól. Til dæmis var það þannig árið 2007 að heildargjaldið, brunavarnagjald, var 236 millj. kr. og fóru rúmar 120 millj. af því til Brunamálastofnunar og um 116 millj. fóru á bundinn höfuðstól. Árið 2008 eru þessar tölur 265 millj. kr. í heildina, rúmar 124 millj. fóru til Brunamálastofnunar, um 140 millj. á bundinn höfuðstól. Í fyrra, árið 2009, er heildartalan 309,7 millj. kr. og 142,8 millj. fóru til Brunamálastofnunar, 166 millj. á hinn bundna höfuðstól. Þessi bundni höfuðstóll er bundinn með þeim hætti að leyfi Alþingis þarf til að losa þaðan fé.

Staða bundins höfuðstóls nam 1. janúar 2010 752 millj. kr. Þetta fé er til og er ekki notað í neitt annað. Hversu skynsamleg ráðstöfun fjármuna þetta er hjá ríkinu skulum við leiða hjá okkur að sinni. Rétt er að benda þingheimi á að með þessu frumvarpi er ætlunin að mæta aukalegum kostnaði af stofnun Mannvirkjastofnunar og innlögn Brunamálastofnunar í hana með því að opna þennan bundna höfuðstól og sækja þangað fé. Þannig er ekki er um að ræða breytingar á tekjum ríkisins. Álögur á borgarana verða óbreyttar og engar beinar greiðslur úr ríkissjóði koma til, þ.e. hækkunin á þessum útgjöldum er fjármögnuð með því að heimila hinni nýju stofnun að nota 100 millj. kr. á ári af innheimtum tekjum af hinu nýja byggingaröryggisgjaldi sem verður jafnhátt og hið gamla brunavarnagjald. Þetta skiptir máli.

Stofnunin þarf sérstaka heimild Alþingis til að ráðstafa þessum fjármunum. Ég veit ekki betur en sú heimild sé í fjárlögunum nú. Mér skilst og hef beðið um að þetta verði rannsakað betur, að ekki standi til að láta stofnunina fá þessar 100 millj. kr. að fullu, svo að þessi gríðarlega eyðslusemi verður ekki jafnmikil og menn halda. Hér er ákveðin hagræðingarkrafa í gangi eins og annars staðar og er um 24 millj. kr. Ég hef nú satt að segja gert athugasemdir við að búin sé til hagræðingarkrafa á tekjur sem koma úr bundnum höfuðstóli. Mér þykir það sérkennileg hagræðing, ég veit ekki hvað ríkið græði á því að hafa peninginn inni á þessum bundna höfuðstól. En það varðar kannski ekki efnislega það mál sem við spjöllum hér um.

Það er mikilvægt að menn skilji þetta alveg og ég horfi hér mjög einbeittur á hv. þm. Birgi Ármannsson sem ég veit að skilur þetta og bið hann að koma þessu á framfæri við vini sína og félaga.

Meira held ég að sé ekki að sinni að segja um þetta. Hafi ég gleymt einhverju gefst tækifæri til að rifja það upp síðar í umræðunni.