Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 11:40:45 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra eða yfirfærsla hans yfir í jöfnunarsjóð var töluvert rædd í nefndinni en við fjölluðum ekki mikið um þennan fasteignasjóð. Ég tek þó heils hugar undir það með hv. þingmanni að húsnæðismál fatlaðs fólks eru oft og tíðum í ólestri. Það hefur ekki verið markviss uppbygging á húsnæði sem hentar fötluðu fólki frekar en að hér hafi verið rekin markviss húsnæðisstefna á síðustu árum.

Húsnæðismálin voru töluvert rædd í nefndinni og áhyggjur hagsmunaaðila af því hvernig þeim yrði háttað í framtíðinni. Þetta er hluti af þeim atriðum sem þarf að fjalla um í framkvæmdaáætluninni sem verður lögð hér fram næsta haust og þetta er eitthvað sem við munum ræða á upplýsingafundum með samráðshópnum.

Varðandi fasteignasjóðinn er það mín skoðun að að sjálfsögðu eigi tekjur af fasteignum sem hafa verið ætlaðar til þjónustu eða húsnæðis fatlaðra einstaklinga að renna inn í það til baka því að húsnæðið er vanbúið, það þarf að gera bragarbót á því. Svo er það nú þannig að talsmenn jöfnunarsjóðs benda á að eignir hans séu eignir hans og með þær verði farið eftir þeirra vilja, en ég hef líka fulla trú á því að sveitarfélögin vilji bæta húsnæðismál fatlaðs fólks og það varð niðurstaða okkar í nefndinni að húsnæðismálunum yrði ekki verr komið hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu.