Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 15:25:42 (0)


139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[15:25]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sérstaklega að hér er komin til atkvæðagreiðslu yfirfærsla á málefnum fólks með fötlun yfir til sveitarfélaganna. Okkur ber auðvitað skylda til að tryggja mannréttindi í landinu og gæta þess að allir búi við bestu skilyrði. Ég treysti sveitarfélögunum afar vel til að taka við þessum málaflokki og tryggja að vel verði búið að fólki.

Ég biðst velvirðingar á því hversu seint þetta frumvarp kom til þingsins en vil þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd sérstaklega fyrir mikla og góða vinnu og þá miklu samstöðu sem náðst hefur um málið. Það er mikils virði í máli eins og þessu að við stöndum öll saman í sambandi við að tryggja slíka þjónustu og að ekki verði deilur um málaflokkinn.