Vextir og verðtrygging o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 23:44:54 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[23:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem er að finna á þskj. 630, um frumvarp til laga um breytingu á þrennum lögum. Þetta er 206. mál þingsins. Um er að ræða breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara.

Meginefni þessa frumvarps er að setja uppgjörsreglur á lánum sem eru með tengingu við erlendan gjaldmiðil, þ.e. lán til einstaklinga sem veitt hafa verið til kaupa á bifreið til eigin nota annars vegar og hins vegar lán sem falla undir skilgreiningu vaxtabótaákvæðis b-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Markmið frumvarpsins er að draga úr óvissu um uppgjör á lánum sem tengd eru eða voru gengi erlendra gjaldmiðla í kjölfar dóma Hæstaréttar frá því í júní og september á þessu ári. Í frumvarpinu er rakið að brýnt sé að tryggja að sambærileg mál njóti sambærilegrar meðferðar og tryggja réttaröryggi lánþega við uppgjör á slíkum lánum.

Frú forseti. Það ætti að vera óþarfi að tíunda að mikill fjöldi þeirra lánasamninga sem gerðir hafa verið í þau níu ár sem lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hafa gilt þarf að taka breytingum í kjölfar dóma Hæstaréttar. Enda þótt dómarnir hafi í sjálfu sér létt af mestu óvissunni hefur komið í ljós að lánasamningarnir sem eru undirliggjandi eru ekki allir sambærilegir og stundum virðist jafnvel tilviljun hafa ráðið hvers kyns eyðublað var notað og því óvíst að jafnræði verði tryggt meðal skuldara.

Hv. efnahags- og skattanefnd hefur fjallað um þetta mál á töluvert mörgum fundum sínum ásamt öllum þeim málum sem hafa verið til umræðu í kvöld og hv. formaður nefndarinnar hefur haft framsögu fyrir. Á fund nefndarinnar komu 39 gestir vegna þessa frumvarps og nefndinni bárust 32 álit. Því er ekki að undra að umfjöllunin hafi verið nokkuð ítarleg og nefndarálit meiri hlutans einnig.

Öllum er ljós sá vandi sem hér er á ferð en menn hafa deilt um hvort úr honum skuli leysa með lagasetningu, með samkomulagi stjórnvalda og fjármálafyrirtækja eða með málaferlum fyrir dómstólum. Samkomulag var reynt og var það flókið úrlausnarefni. Öllum má vera ljóst að ef leysa ætti öll fordæmi í frumskógi þeirra ólíku lánasamninga sem tengdir voru gengi erlendra gjaldmiðla fyrir dómi gætu slík dómsmál skipt tugum, jafnvel hundruðum og niðurstaða dregist á langinn um eitt eða fleiri ár.

Það er niðurstaða meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar að aðeins almenn lög um uppgjör þessara samninga geti komið í veg fyrir að skuldarar verði í ólíkri stöðu eftir því hvar þeir tóku lánin eða hvaða eyðublað var gripið þegar frá láninu var gengið. Í þessu efni eru mörg álitaefni sem gestir og umsagnaraðilar vöktu athygli á og nefndin fjallaði um. Sumir umsagnaraðilar bentu á að hér gæti verið um nokkra áhættu að ræða en sem fyrr segir er það mat meiri hluta nefndarinnar með hliðsjón af stöðu efnahagsmála, þeim fjölda heimila sem á við alvarlegan skuldavanda að etja og mikilvægi þess að leysa vandann þannig að jafnaðar og réttlætis sé gætt sé nauðsynlegt að grípa til þessarar lagasetningar.

Meiri hluti nefndarinnar fellst í meginatriðum á frumvarpið sem slíkt en gerir nokkrar breytingartillögur sem er að finna á sérstöku þingskjali. Í raun er þar um tvær meginbreytingar að ræða. Í fyrsta lagi fellur 1. gr. frumvarpsins brott en í þeirri grein er kveðið á um heimild lögaðila og aðila í atvinnurekstri til töku gengistryggðra lána. Breytingin er lögð til með hliðsjón af umsögn Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands sem kalla eftir heildstæðri endurskoðun, benda á að ákvæðið sé kannski ekki skýrt og að setja þurfi almennar varúðarreglur til að takmarka gjaldeyrisáhættu og ná markmiðum um fjármálastöðugleika. Þess utan hafa nýlega verið kynnt úrræði um lagfæringu á skuldastöðu fyrirtækja undir heitinu Beina brautin og því telur nefndin eðlilegt að leggja til að þetta ákvæði verði fellt niður. Í öðru lagi er lagt til, í ljósi talsvert mikillar og þungrar gagnrýni sem kom fram fyrir nefndinni á mismunandi uppgjörsblöðum og endurútreikningum á lánunum, í 3. gr. að ráðherra skuli heimilt að kveða nánar á um framsetningu slíkra útreikninga á uppgjöri þannig að skýrt sé hvernig skuli setja þá fram og að samræmis gæti í því efni á milli lánastofnana.

Ég vil taka fram að spurningar vöknuðu hjá nefndarmönnum svo seint sem síðdegis í dag um hvernig lánafyrirtækin hefðu annars vegar lagt þessa endurútreikninga fyrir lánþega og hins vegar hvernig skyldi endurreikna þá í samræmi við ákvæði frumvarpsins eins og þau liggja fyrir. Fyrir tilstilli efnahags- og viðskiptaráðuneytisins fékk nefndin starfsmann hjá umboðsmanni skuldara til þess að reikna og sýna hvort tveggja, útreikninga á tveimur dæmum, annars vegar láni sem tekið var og gilti til sjö ára upp á upphaflegan höfuðstól 4,8 milljónir og hins vegar lán til sex ára að upphaflegum höfuðstól 1,6 milljónum tæpum. Í báðum tilvikum kemur í ljós innan við 1% mismunur sem rekja má til þess tímabils sem tók við eftir dóm Hæstaréttar í sumar þegar ekki voru sendir reikningar og má rekja þann mismun í reynd til skekkju í forriti sem var notað til að reikna þetta fyrir nefndina í kvöld. Meiri hluti nefndarinnar er sannfærður um að þarna hafi komið fram að rétt sé reiknað miðað við ákvæði frumvarpsins en telur mikilvægt að ráðherra setji í reglugerð skýr ákvæði um þá framsetningu þannig að hún megi vera öllum ljósari en nú er.

Það eru nokkrar breytingartillögur í viðbót, þetta eru þær veigamestu, brottfall 1. gr. annars vegar og hins vegar reglugerðarheimild um framsetningu útreiknings. Nefndin leggur til að 6. efnismálsgrein 2. gr. falli brott en í henni er kveðið á um að kröfuhafi geti skuldajafnað gagnvart lögaðilum en umsagnaraðilar telja að greinin sé ekki nógu skýr og óljóst sé að hvaða leyti hún víki frá almennum skuldajöfnunarreglum.

Þá varðandi 5. gr. frumvarpsins, en sú grein á við breytingartillögu um lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, en þar er ákvæði um að úrskurðarnefndin skuli fjalla um ágreining milli kröfuhafa annars vegar og hins vegar að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi fjóra menn í úrskurðarnefndina, eins og nánar er tilgreint í breytingartillögunni, í stað þriggja.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa mikið fleiri orð um frumvarpið sem hefur verið ítarlega rætt, ekki aðeins í þingsal við fjölmörg tækifæri heldur einnig í fjölmiðlum. Ég ítreka að það er mikilvægt í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem heimilin í landinu eru í og með tilliti til þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa kynnt varðandi niðurfærslu á skuldum í fasteignaveðlánum að Alþingi taki af skarið og lögleiði sérstakar almennar og sambærilegar reglur um uppgjör lána til bifreiðakaupa og með veði í fasteign, fasteignalána, sem hafa notið réttar til vaxtabóta þegar þessi lán hafa verið tengd gengi erlendra gjaldmiðla og eru því væntanlega ólögleg eða ólögmæt í ljósi dómafordæmis Hæstaréttar.