Þingfrestun

Laugardaginn 18. desember 2010, kl. 14:40:21 (0)

139. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2010.

þingfrestun.

[14:40]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtu alþingismenn. Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Ég vil við þetta tækifæri láta í ljós ánægju með að okkur hefur tekist að standa að mestu leyti við starfsáætlun Alþingis á þessu haustþingi. Ég er ekki síst þakklát fyrir sérstaka lipurð og gott samstarf sem verið hefur með formönnum þingflokka um skipulag þingstarfanna, einkum nú á síðustu dögum haustþingsins. Fyrir það vil ég þakka þeim alveg sérstaklega.

Á síðustu vikum hef ég ásamt fulltrúum þingflokkanna unnið að því að ná samkomulagi um breytingar á þingsköpum sem miða að því að styrkja eftirlitshlutverk þingsins og draga skýrari línur milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Liður í því eru tillögur um bætta nefndaskipan þingsins, að sett verði skýr ákvæði um rétt þingmanna til að fá upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu og um leið kveðið á um upplýsingaskyldu ráðherra og stjórnsýslu þeirra. Ég hef góðar vonir um að ná megi samstöðu allra þingflokka um flutning frumvarpsins við upphaf þings eftir jólahlé.

Samstaðan sem mér virðist vera að skapast milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli tel ég að undirstriki þann almenna vilja þingmanna að styrkja beri Alþingi eins og heitið var með samþykkt Alþingis í septemberlok.

Þetta frumvarp ásamt frumvarpi um rannsóknarnefndir sem fram er komið og er til umfjöllunar í allsherjarnefnd eru tvö stór skref í átt til umbóta á starfi Alþingis sem við höfum heitið að vinna að og margir kalla eftir.

Ég vil að lokum færa þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis, þakkir fyrir gott samstarf á haustþinginu og óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og þakka samstarfið á því ári sem nú er brátt á enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.