Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 291  —  151. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um opinber framfærsluviðmið.

     1.      Hver eru opinber framfærsluviðmið, hvernig er framfærslugrunnurinn samansettur og hvenær var hann síðast uppfærður?
    
Á Íslandi eru ekki til opinber framfærsluviðmið. Frá árinu 2008 var lífeyrisþegum Tryggingastofnunar ríkisins tryggð lágmarksfjárhæð til framfærslu. Grunnurinn að þeirri breytingu var lagður með lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Í 2. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um sérstaka uppbót til lífeyrisþega, svokallaða lágmarksframfærsluuppbót. Þannig er lífeyrisþegum Tryggingastofnunar ríkisins sem ekki ná tekjuviðmiðinu 180.000 kr. með samanlögðum tekjum sínum tryggð sú fjárhæð til framfærslu. Með þessari breytingu fóru lífeyrisgreiðslur almannatrygginga vel yfir fjárhæðir annarra bóta til framfærslu eins og sjá má hér á eftir.
    Hvað fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til framfærslu varðar þá gerðu ráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök félagsmálastjóra með sér samkomulag í desember 2007. Þar er mælt fyrir um að ráðuneytið skuli árlega uppfæra grunnfjárhæð vegna fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og birta viðmiðunarfjárhæðina í leiðbeiningum ráðuneytisins í desember ár hvert. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu er nú 125.540 kr. til einstaklinga, en sú upphæð verður uppfærð nú í desember.

     2.      Stendur til að endurskoða grunninn og taka inn í hann fleiri neysluþarfir, svo sem eðlileg útgjöld er snúa að félags- og tómstundaiðkun barna og ungmenna til 18 ára aldurs?
    
Þar sem opinber framfærslugrunnur er ekki til verður hann ekki endurskoðaður. Hjá ráðuneytinu er unnið að því að þróa hóflegt neysluviðmið fyrir íslensk heimili og í framhaldinu lágmarksframfærsluviðmið. Við vinnslu neysluviðmiðs er tekið tillit til áhrifa fjölskyldugerðar og fjölskyldustærðar á útgjöld. Þar með koma inn útgjöld sem snúa að þátttöku barna í félagslífi, svo sem tómstundaiðkun. Vert er að benda á að mörg sveitarfélög hafa í reglum sínum um fjárhagsaðstoð heimildagreiðslur sem kveða á um sérstakar greiðslur með hverju barni vegna tómstundaiðkunar og fleiri þátta. Á þetta við um Reykjavíkurborg og mörg önnur sveitarfélög. (Sjá skýrsluna Þjónusta sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur á vefsíðu ráðuneytisins, www.felagsmalaraduneyti.is/media/utgafa2010/29102010_Skyrsla_um_ thjonustu_sveitarfelaga.pdf).

     3.      Hver er upphæð opinberra framfærsluviðmiða einstaklings og til samanburðar, hver eru
                  a.      samningsbundin lágmarkslaun,
                  b.      elli- og örorkubætur almannatrygginga,
                  c.      fjárhagsaðstoð sveitarfélaga,
                  d.      skattleysismörk,
                  e.      atvinnuleysisbætur,
                  f.      framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námasmanna?
    
Eins og fram hefur komið eru ekki til opinber framfærsluviðmið hérlendis og því ekki gerlegt að bera þau saman við önnur laun eða bætur.
    Hér á eftir eru upplýsingar um fjárhæðir lágmarkslauna, lægstu tryggingabóta Tryggingastofnunar ríkisins, framfærslu sveitarfélaga, framfærslulána Lánasjóðs, atvinnuleysisbóta og skattleysismarka.*
a.     Samningsbundin lágmarkslaun 165.000 kr.
b.     Lágmarkslífeyrir elli- og örorkubóta almannatrygginga 180.000 kr.
c.     Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga 126.000 kr.
d.     Skattleysismörk 124.000 kr.
e.     Atvinnuleysisbætur 150.000 kr.
f.     Framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna 121.000 kr.
                *Allar fjárhæðir eru í krónum og námundaðar að næsta heila þúsundi. Allar tekjur eru skattskyldar nema námslán, enda um lán að ræða.

     4.      Hvenær munu ný og endurskoðuð framfærsluviðmið taka gildi og verða þau samræmd innan stjórnkerfisins.

    Vinna á vegum ráðuneytisins að neysluviðmiði og framfærsluviðmiði er vel á veg komin. Stefnt er að því að þau taki gildi á fyrri hluta ársins 2011. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um samræmingu innan stjórnkerfisins.