Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 333. máls.

Þskj. 400  —  333. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um efni og efnablöndur
og lögum um eiturefni og hættuleg efni.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur.
1. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, er orðast svo:

Flokkun efna og efnablandna og tilkynningar.


    Áður en efni og efnablanda er sett á markað skulu framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi, með samvinnu sín á milli, flokka efni og efnablöndu með tilliti til hættu fyrir umhverfi og heilsu, svo og eðlisrænnar hættu.
    Framleiðandi eða innflytjandi skal tilkynna hættuflokkun efnis eða einstakra innihaldsefna í efnablöndu til Efnastofnunar Evrópu innan 30 daga frá markaðssetningu.
    Framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi skulu framkvæma mat til grundvallar hættuflokkun efnis eða efnablöndu. Slíkt mat skal framkvæmt á grundvelli fyrirliggjandi og aðgengilegra gagna um viðkomandi efni. Ef þörf er á skulu framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi afla nauðsynlegra gagna í samræmi við prófunaraðferðir sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    Framleiðandi, innflytjandi eða eftirnotandi skal á grundvelli nýrra upplýsinga eða endurmats á fyrirliggjandi upplýsingum breyta áðurgerðri flokkun sé þess þörf.
    Birgi er skylt að varðveita og hafa til reiðu gögn sem tengjast flokkun og merkingu samkvæmt lögum þessum í a.m.k. 10 ár eftir að hann afhenti efnið eða efnablönduna síðast.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hættuflokkun efna og efnablandna og mat til grundvallar hættuflokkun.

2. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, er orðast svo:

Merkingar og umbúðir.


    Birgir skal tryggja að efni og efnablöndur sem tilbúnar eru til notkunar séu merktar í samræmi við hættuflokkun þeirra. Umbúðir skulu merktar með nafni, heimilisfangi og símanúmeri birgis, magni efnis og efnablöndu, hættusetningum, varnaðarsetningum, viðvörunarorðum og hættumerkjum. Texti merkinganna skal vera á íslensku nema kveðið sé á um annað í reglugerð sem ráðherra setur.
    Birgir skal tryggja að umbúðir efna og efnablandna séu traustar, ólekar og nægilega öruggar til að geta varðveitt innihaldið án þess að skemmdir verði á umbúðum eða innihaldi þeirra við eðlilega meðhöndlun. Jafnframt skal hann tryggja að umbúðir efna og efnablandna, sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði, séu hvorki þannig að formi né útliti að þær veki forvitni og athygli barna eða svo að villast megi á þeim og umbúðum undir matvæli, fóður, lyf eða snyrtivörur.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um merkingar, m.a. um tungumál, stærð og gerð umbúða og upplýsingar á merkimiða.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: Efnið hefur verið flokkað í samræmi við 5. gr. a og samkvæmt þeirri flokkun veldur það eðlisrænni hættu, heilbrigðishættu eða umhverfishættu.
     b.      B-liður orðast svo: Efnið er þrávirkt, safnast fyrir í lífverum og er eitrað samkvæmt nánari viðmiðum sem sett eru í reglugerð.

4. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, er orðast svo:

Auglýsingar.

    Í öllum auglýsingum um efni, hvort sem um er að ræða beinar eða óbeinar auglýsingar, skulu koma fram upplýsingar um hættuflokkun þeirra. Sömu upplýsingar skulu fylgja efnablöndum sem eru flokkaðar sem hættulegar eða innihalda hættuleg efni.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. a og 6. gr. a skulu ákvæði er varða flokkun, merkingu og umbúðir efnablandna ekki taka gildi fyrr en 1. júní 2015.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni,
með síðari breytingum.

6. gr.

    1. og 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Eiturefni er hættulegt efni sem í litlu magni veldur dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð.
    Hættulegt efni er efni sem getur valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð, er eldnærandi, eld- eða sprengifimt eða getur valdið tjóni á umhverfi.

7. gr.

    2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 20. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    Tilvísunin „sbr. 13. gr.“ í 2. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Fram til 1. júní 2015 skal eftirfarandi gilda um flokkun efna og efnablandna og merkingu og umbúðir efnablandna:
     a.      Framleiðandi, innflytjandi eða umboðsaðili eiturefna og hættulegra efna auk efnavara eða efnablandna sem innihalda slík efni skal afla upplýsinga um áhrif þeirra. Á grundvelli þeirra upplýsinga skal hann síðan til 1. júní 2015 tilgreina flokkun og merkja viðkomandi efni, efnablöndu og vöru samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.
     b.      Efnablöndur skal láta úti og selja í sterkum og velluktum ílátum. Ílátin skulu vera þannig útlits eða svo greinilega auðkennd að ekki verði villst á þeim og ílátum sem eru notuð undir lyf, matvæli og aðrar neysluvörur, fóðurvörur, fegrunar- eða snyrtiefni eða önnur efni. Ílátin skulu vera greinilega merkt. Á ílátum skal geta innihalds og á ílátum og ystu umbúðum um eiturefni skulu vera eiturmerki. Á ílátunum skulu enn fremur vera varnaðarorð á íslensku. Skulu merkingar vera hliðstæðar því sem tíðkast í nálægum löndum, svo sem kostur er.
     c.      Efnablöndur skal varðveita í umbúðum seljenda eða öðrum umbúðum jafntryggum.
     d.      Heimilt er að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar að kveða á um mat á eiturhrifum og notagildi varnings er hefur tiltekin lífræn leysiefni að geyma og flokkast sem hættuleg efni. Skal þá hlíta nánari ákvæðum um sölu og notkun varningsins eða banni við notkun hans í samræmi við reglugerðir um notkun og bann við notkun eiturefna og hættulegra efna, sbr. 18. gr.

III. KAFLI
Innleiðing og gildistaka.
10. gr.
Innleiðing á reglugerð.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu ákvæða í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna, um breytingu og niðurfellingu á tilskipunum 67/548/EBE og 1999/45/EB og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1907/2006.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Reglugerðir settar samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær brjóta ekki í bága við ákvæði þessara laga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Evrópuþingið og ráðið samþykktu í desember 2008 reglugerð (EB) nr. 1272/2008 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna sem breytir og kemur í stað tilskipana 67/548/EBE og 1999/45/EB, og breytir reglugerð (EB) nr. 1907/2006, sem mun verða hluti af EES-samningnum. Til að tryggja að íslenskt atvinnulíf standi jafnfætis samkeppnisaðilum á Evrópska efnahagssvæðinu er lögð áhersla á að reglurnar taki gildi hér á landi á sama tíma og annars staðar í Evrópu. Til þess að innleiða ákvæði reglugerðarinnar er nauðsynlegt að treysta þá lagastoð sem fyrir er, annars vegar með breytingum á lögum um efni og efnablöndur, nr. 45/2008, og hins vegar með breytingum á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Í kjölfar setningar laganna, verði frumvarp þetta að lögum, mun gerðin verða innleidd með tilvísunaraðferð hér á landi. Frumvarp þetta er samið að höfðu samráði við Umhverfisstofnun. Stofnunin hefur kynnt Samtökum iðnaðarins þau áform að umrædd gerð verði hluti af EES-samninginn og á fræðslufundum kynnt iðnaðinum efni gerðarinnar sem og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.
    Með innleiðingu á reglugerðinni er verið að taka upp samræmda flokkun og merkingu hættulegra efna á heimsvísu, innleiða ný varnaðarmerki auk nýrra hættuflokka og hættu- og varnaðarsetninga. Með reglugerðinni er núgildandi flokkunar- og merkingarkerfi Evrópusambandsins fyrir efni og efnablöndur aðlagað að hinu svonefnda GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna (Globally Harmonised System of Classification and Labelling of Chemicals), sem leggja á grunn að hnattrænni samræmingu á flokkun og merkingu efna og efnavara. Þá styður reglugerðin jafnframt við reglugerð (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni, svokallaða REACH-reglugerð, sem innleidd var með lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur.
    Reglugerðin gildir um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna með það að markmiði að vernda heilsu og umhverfi. Ábyrgð á flokkun efna og efnablandna er að mestu leyti færð yfir á iðnaðinn. Samræmdri flokkun er viðhaldið fyrir efni sem geta valdið krabbameini, stökkbreytingum, eru skaðleg æxlun eða valda ofnæmi í öndunarfærum auk virkra efna í varnar- og sæfiefnum. Meta verður í hverju tilfelli fyrir sig hvort ástæða sé til samræmdrar flokkunar á öðrum efnum.
    Ný varnaðarmerki sem kynna þarf fyrir notendum efna og efnavara taka við af þeim varnaðarmerkjum sem hafa verið í notkun.
    Þá felur nýja flokkunin í sér nýja hættuflokka sem verða töluvert frábrugðnir því sem nú þekkist auk þess að stigskipting verður innan hvers hættuflokks sem er aðeins í litlum mæli nú. Merkingin verður í formi hættutákns og staðlaðra setninga hliðstætt því sem nú þekkist. Endurmerkja þarf alla merkingarskylda efnavöru á markaði hér á landi fyrir 1. júní 2015.
    Þá skal hvert ríki setja á laggirnar rafrænt þjónustuborð með hliðstæðum hætti og gert var í tengslum við framangreinda REACH-reglugerð.
    Reglugerðin mun hafa áhrif á störf fjölda fyrirtækja á markaði og er mikilvægt að þau fyrirtæki séu vel upplýst, til að það skaði ekki samkeppnisaðstöðu þeirra á Evrópumarkaði. Öll efni og efnablöndur sem flokkast sem hættuleg efni og eru seld á markaði þarf að merkja samkvæmt nýju reglunum á komandi árum, hrein efni eigi síðar en 1. desember 2010, efni og efnablöndur eigi síðar en 1. júní 2015. Verði reglugerðin innleidd seinna hér á landi en annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu mun það hafa neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskan iðnað, m.a. hvað varðar samkeppnisstöðu.
    Ljóst er að mikið kynningarstarf þarf að fara fram fyrir þá sem eru að markaðssetja efni og efnablöndur en það eru framleiðendur, innflytjendur, útflytjendur, dreifendur og eftirnotendur. Þá er mikilvægt að fram fari markviss kynning meðal almennra neytenda sem kaupa og nota efnavörur um þýðingu nýrra reglna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að áður en efni og efnablöndur eru sett á markað skuli framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi flokka efni og efnablöndur með tilliti til hættu sem af þeim stafar. Þetta þýðir að á hverjum og einum þessara aðila hvílir sú skylda að tryggja að búið sé að flokka efnið eða efnablönduna á viðeigandi hátt áður en hún er sett á markað. Þannig ber hver og einn í aðfangakeðjunni ábyrgð, óháð öðrum, um að uppfylla þessi skilyrði. Þegar eftirnotandi uppfyllir skyldur sína varðandi flokkun skal honum heimilt að nota þá flokkun efnis eða efnablöndu sem aðili í aðfangakeðjunni hefur gert að því tilskildu að hann breyti ekki samsetningu efnisins eða blöndunnar. Sé efni og efnablanda framleidd hér á landi ber framleiðanda hennar enn fremur að tryggja að efni og efnablanda séu flokkuð á viðeigandi hátt. Þá er rétt að benda á að ef vara er flutt inn frá EES-svæðinu þá hefur efni eða efnablanda að öllum líkindum verið flokkuð samkvæmt ákvæðum laganna, verði frumvarp þetta að lögum. Þrátt fyrir þetta þarf innflytjandi og eftirnotandi að ganga úr skugga um að svo sé og flokka vöruna hafi það ekki verið gert. Annað á við ef um er að ræða efni og efnablöndu sem flutt er inn frá ríki utan EES-svæðisins. Þá má ætla efni eða efnablanda hafi ekki verið flokkuð í samræmi við ákvæði laganna, verði frumvarp þetta að lögum, og því verða innflytjandi og eftirnotandi að sjá um að flokka þau á viðeigandi hátt. Þá er jafnframt í 1. mgr. kveðið á um skyldu framangreindra aðila til að hafa samvinnu sín á milli um flokkun efna og efnablandna sem á að koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja hagkvæmni og samræmingu við flokkunina. Samvinnan felur m.a. í sér að hverjum og einum ber að afhenda öðrum í aðfangakeðjunni nauðsynlegar upplýsingar og gögn svo að þeir geti uppfyllt skyldur sínar um flokkun. Ákvæði þetta er byggt á 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008. Rétt er að benda á að framleiðandi eða innflytjandi hefur frest til 3. janúar 2011 til að tilkynna hættuflokkun efnis eða einstakra innihaldsefna í efnablöndu til Efnastofnunar Evrópu.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að framleiðandi eða innflytjandi skuli tilkynna hættuflokkun efnis eða einstakra innihaldsefna í efnablöndu til Efnastofnunar Evrópu innan 30 daga frá markaðssetningu svo að birta megi flokkun efnisins í sérstakri flokkunar- og merkingaskrá á vegum Efnastofnunar Evrópu. Ákvæði þetta er byggt á 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi skuli framkvæma mat til grundvallar hættuflokkun efnis eða efnablöndu. Samkvæmt þessu hvílir skyldan til að framkvæma matið á hverjum og einum í aðfangakeðjunni með sama hætti og í 1. mgr. greinarinnar og ber því hver og einn ábyrgð á að hættuflokkun sé framkvæmd. Ákvæðið er byggt á 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.
    Þá er í 4. mgr. kveðið á um að sömu aðilar skuli breyta hættuflokkun efnis eða efnablöndu gerist þess þörf á grundvelli nýrra upplýsinga eða endurmats á fyrirliggjandi upplýsingum. Ákvæðið er byggt á 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.
    Samkvæmt 5. mgr. verður birgi skylt að varðveita og hafa til reiðu gögn sem tengjast flokkun og merkingu samkvæmt lögunum í a.m.k. 10 ár eftir að hann afhenti efni eða efnablöndu síðast. Ákvæði þetta er byggt á ákvæði 49. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.
    Loks er í 6. mgr. kveðið á um heimild til handa ráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um hættuflokkun efna og efnablandna sem og mat til grundvallar hættuflokkun.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um merkingar og umbúðir efna og efnablandna. Mikilvægt er að á umbúðum þessara vara séu viðeigandi merkingar sem gefa til kynna skaðleg áhrif þeirra. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja að merkingin máist ekki af umbúðunum og að umbúðir séu þess eðlis að geymsla og meðhöndlun innihaldsins verði með öruggum hætti. Ábyrgðin á því að efni og efnablöndur hafi réttar merkingar og traustar umbúðir hvílir því á herðum þess sem jafnframt er ábyrgur fyrir markaðssetningu, þ.e. birgis. Þannig tekur viðtakandi efnis eða efnablöndu við ábyrgðinni á merkingu við viðtöku ef ætlunin er að dreifa efninu eða efnablöndunni áfram. Um þetta fjalla 1. og 2. mgr. greinarinnar.
    Mikilvægt er að hafa í huga að efni og efnablöndur innihalda m.a. eiturefni og hættuleg efni sem oft eru verulega skaðleg heilsu og umhverfi. Því er nauðsynlegt að merkingar á efnum og efnablöndum miðli upplýsingum til neytenda um þá hættu sem er samfara notkun þessara vara og að tryggt sé að neytendur skilji þær merkingar sem notaðar eru. Því er greininni gerð tillaga um að viðeigandi merkingar skuli vera á umbúðum efna og efnablandna til að gefa til kynna skaðleg áhrif þeirra. Gerð er tillaga um að umbúðir skuli merktar með nafni, heimilisfangi og símanúmeri birgis, magni efnis og efnablöndu, hættusetningum, varnaðarsetningum, viðvörunarorðum og hættumerkjum. Jafnframt er lagt til að texti merkinganna skuli vera á íslensku nema kveðið sé á um annað í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. ákvæði 3. mgr. Ljóst er að krafa um merkingu á íslensku mun eiga við um eiturefni og hættuleg efni. Hættuleg efni eru, samkvæmt skilgreiningu í frumvarpinu, efni sem geta valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð, eru eldnærandi, eld- eða sprengifim eða geta valdið tjóni á umhverfi. Jafnframt er í greininni gerð tillaga um að tryggt sé að merkingin máist ekki af umbúðunum og að umbúðir séu þess eðlis að geymsla og meðhöndlun innihaldsins verði með öruggum hætti.
    Rétt og skiljanleg merking efnavara og skýr öryggisblöð eru mikið öryggismál. Því þarf að tryggja að framkvæmd merkinga sé góð, þannig að merkingar miðli upplýsingum til neytenda um hættuna sem er samfara notkun vörunnar. Ljóst er að íslenskur markaður er smár og vöruúrval mikið. Þannig er fjöldi efnavara hér á landi sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndum okkar þó svo að magnið sé að öllu jöfnu mun minna. Þetta hefur í för með sé að innflytjendur eiga væntanlega ekki auðvelt með að fá birgja sína erlendis til að merkja á íslensku, nema um stórinnflytjendur sé að ræða. Almennt þurfa því innflytjendur að sjá um þetta sjálfir með því að láta þýða merkimiða og líma þá á umbúðir. Þar sem um mjög hættulega vöru getur verið að ræða er lagt til, eins og að framan greinir, að meginreglan verði sú að texti merkinga skuli vera á íslensku. Nýti ráðherra sér heimild til að kveða á um annað í reglugerð er gert ráð fyrir að merkingar verði þá á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Hins vegar er ljóst að þetta verða undantekningartilvik, til að mynda gæti þetta átt við þar sem almenn, víðtæk þekking og reynsla er fyrir hendi á notkun vörunnar eða þegar sérfræðingar nota efnið vinnu sinnar vegna. Mikilvægt er að efni og efnavörur séu rétt merktar og því þurfa eftirlitsaðilar að veita birgjum leiðbeiningar þar um og hafa virkt eftirlit með merkingum.
    Ákvæði 2. gr. eru byggð á 17. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008. Þar er m.a. kveðið á um að merkimiði skulu vera á opinberu tungumáli þess aðildarríkis þar sem efnið eða efnablandan er sett á markað nema hlutaðeigandi aðildarríki kveði á um annað. Jafnframt kemur fram í reglugerðinni að birgjar megi nota fleiri tungumál á merkimiðum sínum en þau sem aðildarríkið fer fram á, að því tilskildu að sömu upplýsingar komi fram á öllum þeim tungumálum sem notuð eru.
    Til að auka öryggi enn frekar er kveðið á um það í greininni að birgir skuli enn fremur tryggja að umbúðir efna og efnablandna, sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði, hafi hvorki þannig form né útlit að þær veki forvitni og athygli barna eða svo að villast megi á þeim og umbúðum undir matvæli, fóður, lyf eða snyrtivörur. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði 2. tölul. 35. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að sú breyting verði gerð á a-lið 1. mgr. 7. gr. að í stað þess að vísa til þess að efni sé skilgreint sem hættulegt eða eitrað samkvæmt lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, eins og verið hefur, þá verði vísað til þess að efni hafi verið flokkað í samræmi við 5. gr. a, sbr. 1. gr. þessara laga, og að samkvæmt þeirri flokkun valdi það eðlisrænni hættu, heilbrigðishættu eða umhverfishættu. Þetta er gert í ljósi þess að með reglugerð (EB) nr. 1272/2008 er ekki lengur gerður greinarmunur á eiturefnum og hættulegum efnum með sama hætti og áður hefur verið gert. Þannig verður héðan í frá gert ráð fyrir að efni verði flokkuð eftir hættueiginleikum og mögulegum áhrifum þeirra. Þar af leiðandi er eðlilegt að vísa til 1. gr. laganna, sbr. 5. gr. a, um flokkun efna og efnablandna varðandi það með hvaða efnum öryggisblöð skulu fylgja.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til sú breyting að „og“ komi í stað „eða“. Ákvæðið sem um ræðir er byggt á 31. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir á efnum (REACH) en samkvæmt þeirri grein er gerð krafa um að öryggisblað fylgi við afhendingu efnis sé það þrávirkt, safnist fyrir í lífverum og sé eitrað. Þetta þýðir að allir þessir þættir þurfa að vera til staðar svo gerð sé krafa um að öryggisblað fylgi við afhendingu, skv. b-lið greinarinnar.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að í öllum auglýsingum fyrir efni og efnablöndur sem geta verið skaðlegar, hvort sem um er að ræða beinar eða óbeinar auglýsingar, skuli koma fram upplýsingar um hættuflokkun til að neytendum sé ljóst að vara geti verið varasöm og hvaða skaðlegu eiginleikar notkun hennar getur haft í för með sér. Ákvæði greinarinnar eru byggð á 1. og 2. tölul. 48. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008.

Um 5. gr.


    Í bráðabirgðaákvæði er lagt til að ákvæði 5. gr. a og 6. gr. a er varða flokkun, merkingu og umbúðir efnablandna skuli ekki taka gildi fyrr en 1. júní 2015. Er þetta í samræmi við 62. gr. reglugerðar (EB) nr. 1272/2008. Þetta þýðir að þar til 15. júní 2015 gilda áfram þær reglur sem verið hafa í gildi um flokkun, merkingu og umbúðir efnablandna, sbr. reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að efnablöndur verði fyrir þann tíma flokkaðar, merktar og settar í umbúðir í samræmi við ákvæði þessa frumvarps og gilda þá alfarið hinar nýju reglur.

Um 6. gr.


    Í greininni eru lagðar til nýjar skilgreiningar á hugtökunum eiturefni og hættuleg efni vegna niðurfellingar á þeim lista sem fram að þessu hefur verið vísað til þar sem slík efni eru tiltekin sérstaklega. Þetta er gert til að setja almennt viðmið um hvaða eiginleikar geri efni hættulegt. Þá er þörf á að aðgreina eiturefni áfram frá öðrum hættulegum efnum svo að áfram megi viðhalda strangari skilyrðum um framleiðslu, innflutning, viðskipti og notkun eiturefna en eiga við um önnur hættuleg efni. Áfram verður hægt að greina eiturefni frá öðrum hættulegum efnum í opinberum listum yfir hættuleg efni. Í samræmi við þetta er gerð tillaga um að eiturefni séu í lögum þessum skilgreind sem efni sem í litlu magni valda dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð. Þá verða hættuleg efni skilgreind sem efni sem geta valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð, eru eldnærandi, eld- eða sprengifim eða geta valdið tjóni á umhverfi.

Um 7. gr.


    Niðurfelling nokkurra ákvæða í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, er nauðsynleg þar sem fjallað verður um þessi atriði í lögum um efni og efnablöndur, verði frumvarp þetta að lögum. Í samræmi við þetta er lagt til að 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. og 20. gr. laganna falli brott.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Í greininni eru lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða varðandi flokkun efna og efnablandna og merkingu og umbúðir efnablandna.
    Í a-lið er lagt til ákvæði sem tryggi áframhaldandi lagastoð reglugerðar nr. 236/1990 sem gildir um efnablöndur til 1. júní 2015. Sambærilegt ákvæði var að finna áður í 20. gr. sem lagt er til að nú falli brott, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þá má jafnframt benda á að til nokkurs tíma hefur verið talið að skorti á skýra lagastoð fyrir ábyrgð atvinnulífsins til flokkunar og merkingar, þó svo að reglugerðin hafi kveðið á um þá ábyrgð. Með setningu þessa bráðabirgðaákvæðis verður lagastoð fyrir ákvæðum reglugerðar nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni skýr hvað varðar skyldu til flokkunar og merkingar efnablandna, þar til reglugerðin fellur endanlega úr gildi 1. júní 2015.
    Í b–d-liðum eru lögð til ákvæði sem eru efnislega samhljóða 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni. Þetta er til komið þar sem framangreindar greinar falla brott verði frumvarp þetta að lögum, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Er þetta nauðsynlegt í ljósi þess að ákvæði er varða skyldu til flokkunar, merkingar og umbúða efnablandna taka ekki gildi fyrr en 1. júní 2015. Er því áframhaldandi lagastoð fyrir eldri reglum er varða skyldu vegna efnablandna nauðsynleg þar til þær nýrri taka við.

Um 10. gr.


    Hér er gerð grein fyrir því að frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna, um breytingu og niðurfellingu á tilskipunum 67/548/EBE og 1999/45/EB og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 1907/2006.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að lögin öðlist þegar gildi. Þá er jafnframt hnykkt á því að þær reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, haldi gildi sínu brjóti þær ekki gegn ákvæðum þessara laga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2008,
um efni og efnablöndur, og lögum nr. 52/1988, um eiturefni og
hættuleg efni, með síðari breytingum.

    Frumvarpinu er ætlað að leiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1272/2008, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Með reglugerðinni er núgildandi flokkunar- og merkingakerfi Evrópusambandsins fyrir efni og efnablöndur aðlagað að svonefndu GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að leggja grunn að hnattrænni samræmingu fyrir flokkun og merkingu efna og efnavara. Ábyrgð á flokkun efna er að mestu færð til atvinnulífsins, svo sem framleiðenda, innflytjenda og birgja. Má því gera ráð fyrir að kostnaður af lögfestingu frumvarpsins og innleiðingu reglugerðarinnar komi einkum fram tímabundið hjá þessum aðilum. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd laganna og gera má ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins kunni að leiða til einhverrar aukningar í leiðbeiningar- og kynningarstarfi stofnunarinnar fyrst um sinn sem ekki hefur þó verið lagt mat á að svo stöddu. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að kostnaði sem af því kann að leiða verði mætt innan fjárhagsramma stofnunarinnar í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.