Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 496  —  61. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna S. Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti. Þá barst nefndinni umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er leitað heimildar til að fullgilda samning milli Evrópusambandsins, Íslands, Liechtensteins og Noregs um EES-fjármagnskerfið (hér eftir kallað Þróunarsjóður EFTA) fyrir árin 2009–2014. Skrifað var undir nýtt samkomulag um framlög í Þróunarsjóð EFTA í ágúst 2010. Samhliða því var endurnýjaður samningur um viðskipti með sjávarafurðir sem gilt hefur undanfarin fimm ár.
    Samningurinn um Þróunarsjóð EFTA kveður á um fjárhagslegan stuðning EES/EFTA- ríkjanna við þau aðildarríki Evrópusambandsins sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu ríkja Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins. Samningar þessa efnis hafa gilt fimm ár í senn frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 og voru þeir fyrst framlengdir árið 1999 og aftur árið 2004. Viðhorf Evrópusambandsins er að þessi stuðningur sé ein af forsendum EES-samningsins. Það er ástæða þess að sambandið tekur málið ítrekað upp að liðnum gildistíma samninga um sjóðinn. Ísland hefur þó ávallt lagt á það ríka áherslu að engin lagaleg skuldbinding standi til greiðslna af þessum toga. Vert er að nefna að nefndarmenn í utanríkismálanefnd sem starfa á vettvangi sameiginlegrar þingmannanefndar EES hafa haldið þessari afstöðu skýrt fram þegar málefni Þróunarsjóðsins hefur borið á góma í nefndinni og hið sama á við um fulltrúa hinna EES/EFTA-ríkjanna.
    Samningaviðræður vegna Þróunarsjóðsins fyrir árin 2009–2014 reyndust erfiðar vegna kröfu ESB um aukin fjárframlög sem EES/EFTA-ríkin töldu óraunhæfar með öllu. Samningaviðræðum lauk á vormánuðum árið 2010 og var samningur um endurnýjaðan sjóð undirritaður í ágúst sama ár. Samningurinn er að efni til í samræmi við fyrri samninga en árleg framlög í sjóðinn hækkuðu úr um 150 milljónum evra í 198 milljónir evra. Framlag Íslands verður þó óbreytt í evrum frá því sem verið hefur undanfarin fimm ár og munu Noregur og Liechtenstein bera þessa hækkun. Með þessum hætti var tekið tillit til alvarlegrar efnahagslegrar stöðu Íslands í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Þess má geta að frá hausti 2008 hafa nefndarmenn í utanríkismálanefnd gert kröfu um að tillit væri tekið til yfirstandandi efnahagskreppu hérlendis í umræðum um samningaviðræður um nýjan Þróunarsjóð á vettvangi sameiginlegrar þingmannanefndar EES.
    Nefndin leggur áherslu á að með nýjum samningi um Þróunarsjóðinn hefur tekist að halda framlagi Íslands óbreyttu eða að hámarki 6,8 milljónir evra á ári. Þá áréttar nefndin að með frumvarpi þessu er verið að breyta 117. gr. EES-samningsins þar sem vísað er til bókana um Þróunarsjóð EFTA en ekki lögfesta bókanirnar sjálfar. Nefndin undirstrikar jafnframt að ekki beri að líta á framlög til Þróunarsjóðsins sem lögformlega skyldu EES/EFTA-ríkjanna. Að síðustu fagnar nefndin því að samhliða endurnýjun samnings um Þróunarsjóð EFTA var endurnýjaður samningur um niðurfellingu tolla á ákveðnu magni tiltekinna sjávarafurða sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólöf Nordal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Björgvin G. Sigurðsson.


Birgitta Jónsdóttir.



Álfheiður Ingadóttir.


Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson,


með fyrirvara.