Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 109. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 900  —  109. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið sem hefur áður verið flutt á 132. löggjafarþingi (38. mál), 133. löggjafarþingi (46. mál) og 138. löggjafarþingi (108. mál). Umsagnir bárust um málið á fyrri löggjafarþingum frá Ferðafélaginu Útivist, rannsóknarnefnd umferðarslysa, ríkislögreglustjóra, Sveitarfélaginu Árborg, Umferðarráði, Vegagerðinni, Ferðamálaráði Íslands, lögreglustjóranum á Selfossi og Torfa G. Sigurðssyni verkfræðingi.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Gert er ráð fyrir því að slík úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat liggi fyrir 1. mars 2011.
    Umsagnaraðilar ýmist fagna tillögunni eða gera ekki athugasemdir við efni hennar. Þó hafa þeir bent á að verulega knappur tími sé áætlaður til verksins. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur m.a. fram að lagt hafi verið mat á möguleika þess að byggja léttari brú utan á núverandi brú en niðurstaða þess mats hafi verið að slíkt væri ekki skynsamlegt í ljósi burðarþols. Af þeim sökum telji Vegagerðin að horfa verði til annarra kosta. Þá bendir Vegagerðin á að unnið sé að undirbúningi vegna færslu hringvegarins norður eða austur fyrir þéttbýlið á Selfossi og smíði nýrrar brúar. Í umsögn Torfa G. Sigurðssonar verkfræðings er vakin athygli á að Kristján Helgi Hafsteinsson hafi unnið lokaverkefni í byggingarverkfræði við Háskólann í Reykjavík sem fjallaði um möguleika á göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss.
    Nefndin telur að veruleg þörf sé á að gera úttekt á því hvaða kostir eru raunhæfir þegar kemur að brúun Ölfusár við Selfoss. Af umsögnum umsagnaraðila má sjá að þættir sem tengjast umferðaröryggi gangandi vegfarenda og samgöngum íbúa innan bæjar á Selfossi eru meðal grunnforsendna hvatningarorða þeirra. Nefndin bendir þó á að samkvæmt upplýsingum í athugasemdum við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 (þskj. 973 í 582. máli á 138. löggjafarþingi) hafa átt sér stað umræður um aðkomu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun framkvæmda, þeirra á meðal nýrrar brúar yfir Ölfusá. Kostnaður við slíka framkvæmd er áætlaður um 2.800 milljarðar kr. og gert ráð fyrir að hægt sé að hefja framkvæmdir á árinu 2013. Það er álit nefndarinnar að ekki verði komist hjá því að taka tillit til mögulegra samlegðarkosta við úttektargerðina. Þá telur nefndin rétt að taka tillit til framkominna athugasemda við tímafrest til að ljúka við gerð úttektarinnar.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2011“ komi: 1. febrúar 2012.

    Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. febr. 2011.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Árni Johnsen.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Ásbjörn Óttarsson.


Mörður Árnason.